143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get algjörlega tekið undir þessa ábendingu hv. þm Steingríms J. Sigfússonar. Þetta er ósigur. En að einhverju leyti má kannski réttlæta það með því að frumvarpið er lagt fram á réttum tíma, 1. október, sem er nýlunda. Þar af leiðandi hefur ráðuneytinu ekki unnist jafn mikill tími og hingað til, þegar þessi mál komu miklu seinna fram, til að fullvinna það. Ég vil svo benda á að þessi atriði fá þó alla vega tvær umræður, stundum hafa komið mál í 3. umr. sem er breyting. Ég tek undir það að þetta er ekki góð lenska. Menn skyldu reyna að vanda sig betur næst.

Ég tók sérstaklega fram að gefist hefði mjög góður tími til umræðu um þessi atriði. Þó er það þannig með þessar breytingartillögur sem komu frá ráðuneytinu, beint að segja, að þær komu tiltölulega seint fram og fengu ekki þá umræðu í nefndinni eins og skyldi hafa verið þegar hægt er að kalla til gesti eða senda til umsagnar. Þetta eru eiginlega bara þessi tvö atriði sem eru vegna innlagnar á spítala; það lá nú nokkurn veginn fyrir þó að útfærslan sé önnur hérna.

Svo varðandi það sem mér finnst vera sjálfsagt, og hefði átt að gera fyrir löngu, að láta tryggingafélögin borga fyrst og almannatryggingar á eftir en ekki öfugt, að almannatryggingar borgi fyrst og svo dragi tryggingafélögin það frá sínum bótum. Það finnst mér ekki vera gott. Þannig að þetta er löngu tímabært, þessi breyting. Engu að síður hefði verið miklu betra ef nefndin hefði getað lagst yfir þetta, sérstaklega vegna þess að þessi síðari breyting er þó nokkuð flókin.