143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil fara yfir nokkur efnisatriði í þessu frumvarpi, reifa lítillega áherslur sem fram koma í breytingartillögum meiri hlutans og gera grein fyrir breytingartillögum sem ég flyt við 2. umr. þessa máls.

Í fyrsta lagi varðandi verðlagsuppfærslur verð ég nú að viðurkenna að ég á sumpart bágt sem gamall fjármálaráðherra gagnvart því að ég ætla auðvitað ekki að skipta um skoðun frekar en hv. þm. Pétur Blöndal, það er ekki gott að láta tekjustofna af þessu tagi sakka niður ef menn vanrækja það árum saman að láta þá fylgja verðlagi og standa svo frammi fyrir stórum stöllum þegar þarf að hækka þá aftur. Ég ætti nú að þekkja þetta manna best því að svo vill til að ég var nákvæmlega fjármálaráðherra í fjármálaráðuneyti Íslands 1. febrúar 2009. Hvernig var aðkoman þá að mjög mörgum af þessum gjaldstofnum, króntölugjöldum, áfengis- og tóbaksgjaldi, olíu- og bensíngjaldi og öðru slíku? Jú, í kæruleysi sínu og hirðuleysi hafði ríkisstjórn frá því upp úr aldamótum meira og minna vanrækt að láta þessa tekjustofna fylgja verðlagi. Kæruleysið byggðist auðvitað á því að ríkissjóður gerði út á froðutekjur þenslunnar. Það munaði eiginlega ekkert um þetta, fannst þeim þannig að það voru stórir stallar sem vantaði upp á að mjög margir svona tekjustofnar hefðu fylgt verðlagi. Við urðum í nokkrum áföngum að taka verulegar hækkanir á þetta til þess að ná þessu aftur nokkurn veginn upp til verðlags eins og það hafði verið, t.d. þegar lögum hafði verið breytt eða einhverjar nýjar innleiðingar höfðu orðið á þessum sviðum eins og þegar olíugjald hafði komið í stað kílómetragjalds o.s.frv.

Við unnum þetta upp þannig að slakinn er að mestu leyti horfinn á nýjan leik úr áfengisgjaldi, tóbaksgjaldi, olíugjaldi, bensíngjaldi, kílómetragjaldi og öðru slíku — reyndar hefur hækkun tóbaksgjalds aðeins farið upp fyrir mörkin. Það er sennilega eini gjaldstofninn af þessu tagi sem núna er ívið hærri að raungildi en hann var þegar það var innleitt í núverandi mynd.

Engu að síður er það auðvitað þannig að meta verður aðstæður á hverjum tíma. Svo vill til að sá sem hér talar var líka ráðherra og tók líka þátt í þjóðarsáttinni af hálfu stjórnvalda á sínum tíma — það eru víst ekki margir eftir hér sem voru með í því sem starfandi stjórnmálamenn. Að sjálfsögðu geta verið uppi aðstæður þar sem ríki og sveitarfélög eiga að leggjast á árar með aðilum vinnumarkaðarins til þess að ná niður verðlagi og innleiða stöðugleika í landinu.

Ef hefði verið í boði eða væri í boði núna samstillt átak til þess að verjast verðbólguvæntingum og verðbólguþrýstingi, sem er áhyggjuefni, á ríkið auðvitað ekki að skorast úr leik og liður í því gæti verið eitthvað vægari verðlagsuppfærsla ýmissa kostnaðarliða. Þess vegna er það nefnt í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem möguleiki að ríkið byði t.d. fram af sinni hálfu að vera bara með uppfærsluna á verðbólgumarkmið Seðlabankans, 2,5%. Það hjálpar aðeins og væri líka táknrænt að menn tækju ekki þarna inn fulla verðlagsuppfærslu.

Ég hlýt svo að staldra dálítið við 17. gr. frumvarpsins eins og hún er og jafnvel þótt meiri hlutinn reyni að klóra í bakkann með breytingartillögum sínum í þeim efnum. Ég ætla aðeins að fara yfir það mál. Það væri ágætt að formaður efnahags- og viðskiptanefndar legði nú vel við eyru. Ég veit að honum er málið kært. Ég met það auðvitað. Ég veit að hv. þingmaður er út af fyrir sig einlægur í því enda hefur hann mikið sinnt slíkum málum en það hafa líka fleiri gert.

Það er þannig að í ein 12, 15 ár höfðu þeir sem sinna rannsóknum og þróun og nýsköpun barist fyrir svona umbótum í skattkerfinu á Íslandi. (Gripið fram í.) Við erum langt á eftir öðrum þjóðum varðandi það að hlúa að þessum geira. Það var samt þannig, og mega nú ekki einhverjir aðeins roðna í kinnum, að allt langa þenslugóðæristímabilið þegar ríkið var í fínum færum til að greiða götu svona hluta þá gerðu menn það ekki. Það þurfti eitt stykki hrun, eitt stykki kreppu og eitt stykki hreina vinstri stjórn til þess að koma þessum lögum á. Það gerðum við 2010 og kerfið starfaði frá og með árinu 2011. Það tók vel við sér því að endurgreiddur kostnaður eða skattafsláttar var samtals um 500 millj. kr. strax á því ári. Síðan hefur þetta vaxið ánægjulega í um 800 milljónir eða svo 2012 og sennilega eitthvað nálægt 1,1 milljarði í ár, ef ég man þá áætlun rétt.

Ég man alveg eftir því þegar ég var að undirbúa fjárlögin fyrir árið 2012 og við sáum að þessi útgjöld voru að aukast verulega á því ári, þá komu upp hugmyndirnar um að setja einhverjar skorður við þessum útgjöldum því að þarna væri greinilega að vaxa ákveðinn kostnaðarliður hjá ríkinu. Víðfrægur maður, skrifstofustjóri í einni af skrifstofum fjármálaráðuneytisins, benti á þetta og spurði hvort ekki yrði að taka þarna í taumana? Ég sagði nei. Þetta eru eiginlega einu útgjöldin sem ég gleðst virkilega yfir að sjá vegna þess að þau eru ávísun á aukin umsvif og auknar tekjur og vöxt og viðgang sem við fáum margfaldan til baka. (Gripið fram í: Heyr, heyr) Það á við enn.

Síðan fór það nú þannig að þrátt fyrir að ýmislegt væri sagt um ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, ríkisstjórn okkar Jóhönnu eins og sumir kölluðu hana, var sá sem hér stendur heiðraður með sérstökum verðlaunum af Samtökum iðnaðarins og Samtökum sprotafyrirtækja við starfslok sín sem ráðherra, m.a. fyrir þessa löggjöf sem ég á auðvitað ekki einn heldur allir þeir sem að því stóðu að innleiða hana. Þessi geiri hefur virkilega kunnað að meta þennan stuðning.

Ég á hjartnæm bréf frá nýsköpunarfyrirtækjum sem nýttu sér þetta á árinu 2011 og 2012, þar á meðal eitt vestan af fjörðum sem beinlínis sagði mér að þeir væru ekki á lífi í dag ef þeir hefðu ekki fengið ávísanirnar, beina endurgreiðslu á þessum útlagða kostnaði sem aðallega voru vinnulaun. Það sem skipti þessi fyrirtæki mestu máli var að þetta voru peningar sem ekki eru á hverju strái þegar frumherjarnir eru jafnvel að vinna í sjálfboðavinnu við að koma svona málum áfram.

Ég sagði á vettvangi þessara fyrirtækja fyrir um ári síðan, þá sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, að ég mundi beinlínis leggja það til að um leið og við treystum okkur til vegna stöðu ríkisfjármála rýmkuðum við þessar reglur. Þá var ég einmitt með í huga þökin sem hér á að fara að lækka. Af hverju? Vegna þess að þeir sem þekkja vel til í fyrirtækjunum sem eru svona aðeins að komast á legg vita auðvitað að það er áframhaldandi og mikilvægur stuðningur við þau að þetta fylgi þeim aðeins á vaxtarskeiðinu. Ég er sammála hv. formanni nefndarinnar um að kannski er albrýnast að hlúa að litlu sprotunum sem eru að koma upp úr moldinni. Að því leyti skal ég viðurkenna, frú forseti, að ég tel af tvennu illu skárra að lækka aðeins þökin en að lækka endurgreiðsluhlutfallið. Báðir kostirnir eru mjög vondir og alveg ótrúlegir, óskiljanlegir.

Dæmin sem við höfum í höndunum um það hvernig ríkið á stuðningstímanum fær margfaldar skatttekjurnar til baka, margfaldan afsláttinn til baka liggja fyrir og hafa verið reifuð, m.a. í blaðagrein í dag.

Ég held að þetta sé ákaflega óskynsamlegt. Þá er eftir það sem kemur mér nú í raun og veru mest á óvart, að þetta er ekki vegna þess að ríkisstjórnin sé í ægilegum vandræðum, sem hún auðvitað er, að koma saman hallalausum fjárlögum 2014. Nei, hér á að stemma stigu við útgjöldum 2015. Er þetta þá metnaðurinn sem ríkisstjórnin hefur inn í framtíðina?

Út af fyrir sig skil ég hæstv. fjármálaráðherra og enn betur aðalvinnuhest hans við undirbúning fjárlagafrumvarpsins. Horfurnar eru ekki góðar 2015 og ekki 2016 og ekki 2017, það er sótsvört ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma fyrir framan okkur, framreikningur fjármálaráðuneytisins frá því í haust. Mér finnst það samt ansi mikið kjarkleysi og metnaðarleysi að þora ekki að taka áhættuna af því að útgjöldin yrðu kannski 300 milljónum meiri á árinu 2014 vegna þess að umfangið væri að aukast í rannsóknar-, nýsköpunar- og sprotastarfsemi á Íslandi. Væru það svo sorglegar fréttir? Nei, ég held ekki.

Ég bið menn lengstra orða að velta þessu fyrir sér: Getum við ekki látið þetta einhvern veginn hverfa og farið yfir það aftur milli 2. og 3. umr.?

Ástæðan fyrir því að það er ekki góður kostur að taka niður þökin er m.a. sú að sum þessara fyrirtækja eru ákaflega hreyfanleg þegar þau fara að komast svolítið á legg. Þau eru girnileg í augum margra. Því miður hafa sum þeirra færst úr landi eða eignarhaldið í þeim færst í vaxandi mæli til erlendra aðila. Til dæmis tæknifyrirtæki og fyrirtæki á sviði hugbúnaðar, sem eru myndarlegur hluti þessa blómstrandi geira, þetta eru mjög hreyfanleg fyrirtæki. Þekkingin er aðalverðmætið og síðan einhverjar vörur sem hafa verið þróaðar á rafrænu formi en staðsetningin getur í raun og veru verið hvar sem er. Við höfum séð nokkur dæmi um að þessi fyrirtæki hafa farið.

Það skiptir líka máli hvaða skilaboð við sendum þeim, að við ætlum að hlúa að þeim aðeins lengur en bara út af vöggustofunni, ef svo má að orði komast. Ég tel því að við hefðum átt að skoða einhver svona „prógressív“ þök. Já, ég viðurkenni alveg að ég mundi ekki mæla með því að við lyftum þeim bara eða slepptum þeim, enda þarf þess ekki þegar fyrirtæki er orðið fjölþjóðlegt og mjög sterkt og leggur hvort sem er til hliðar mikla fjármuni í rannsóknar- og þróunarstarf í rekstraráætlunum sínum. Við erum ekki að tala um að endurgreiða það án nokkurra þaka heldur að þetta fylgi þeim eitthvað lengur, t.d. að fyrirtækin, ég nefni bara sem dæmi, fengju 10% en ekki 20% af rannsóknarkostnaði, þ.e. frá 100 upp í 200 milljónir endurgreiddar. Þá værum við í raun og veru að búa til svolítinn skala þannig að stuðningurinn elti þau aðeins lengra upp í millistór fyrirtæki. Það er vinsamlegra umhverfi. Það eru ákveðin skilaboð til þeirra: Þið eruð velkomin á Íslandi og verið hérna hjá okkur.

Varðandi 18.–21. gr. frumvarpsins eru þar æfingarnar með Ríkisútvarpið og nefskattinn. Ég vil aðeins gera það að umtalsefni. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að sjá hvernig þetta er gert. Hvað er þarna á ferðinni? Jú, það er vaðið inn í lög sem sett voru á Alþingi vetur sem leið í tiltölulega breiðri samstöðu, allir flokkar studdu málið nema Sjálfstæðisflokkurinn sem sat að mestu leyti hjá. Hæstv. menntamálaráðherra hóf þennan leiðangur í sumar með því að ryðja stjórnina. Núna er farið í útvarpsgjaldið. Hvernig er það gert? Jú, það er gert þannig að fyrst er útvarpsgjaldið hækkað en verulegur skerfur tekinn í ríkissjóð á næsta ári. Útvarpsgjaldið, hinn markaði tekjustofn útsvarsins, er hækkað til þess að ríkið geti tekið meira til sín. Svo er það lækkað 2015 og 2016 og þegar Ríkisútvarpið á að fara að fá allt útvarpsgjaldið er það orðið mun lægra en það er í dag og mikið mun lægra en það á að verða á næsta ári. Þetta er alveg stórfurðuleg ráðstöfun verð ég að segja. Nær hefði verið að láta a.m.k. útvarpsgjaldið standa óbreytt. Það er mjög gróft að hækka þennan nefskatt að því er virðist í því eina skyni að ríkið geti ásælst meiri tekjur á næsta ári og hent honum svo stórlækkuðum aftur í Ríkisútvarpið. Er nema vona að það kraumi dálítið undir þar?

Hv. þm. Árni Páll Árnason fór rækilega yfir það sem varðar skráningargjöldin í háskólanum þannig að ég þarf ekki að eyða löngum tíma í það. Það er ákaflega dapurlegt og snautlegt að leggja sérstakan viðbótarskatt á stúdenta með því að hækka þessi skráningargjöld en skera svo fjárveitingar til háskólanna niður á móti þannig að þeir beri sáralítið úr býtum. Það eru óskaplega snautleg skilaboð sem með því eru send.

Ég vil staldra lengur við 24.–28. gr. frumvarpsins sem snýr að fæðingarorlofi. Það vekur mér mikla hryggð, satt best að segja, að sjá metnaðarleysi þessarar ríkisstjórnar í þeim efnum, að öll áform um lengingu fæðingarorlofs og umbætur í því séu einfaldlega slegnar af á einu bretti. Það er alveg ótrúlega dapurlegt. Það kemur inn á margt. Ef ég væri í forsvari einhvers staðar á meðal aðila vinnumarkaðarins eða sveitarfélaganna í landinu tæki ég þessu ekki vel sem frétt vegna þess að það er gríðarlegt sameiginlegt hagsmunamál okkar allra, og auðvitað þó fyrst og fremst fjölskyldnanna og barnanna, að umbætur verði í þessu kerfi hjá okkur. Við erum langt á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum. Þetta ber fólk saman þegar það veltir því fyrir sér hvar það eigi að taka sér bólfestu, t.d. eftir nám, sem er iðulega annars staðar á Norðurlöndunum þar sem fæðingarorlofsfyrirkomulagið er mun betra. Og stjórnarliðar skýla sér á bak við það að þeir séu svo rausnarlegir að hækka þakið um 20 þús. kr., frú forseti. Það var hækkað í fyrra um 50 þús. kall frá því sem það var lægst, úr 300 í 350 þús. kr. Núna á það að fara í 370 þúsund. Hvað er það miðað við verðbólguhorfur? Það er innan við 10 þús. kr. hækkun að raungildi, sennilega svona 9.600 kr. Það er allt og sumt. Það er varla hægt að tala um að verið sé að hækka þakið. En áformin um lengingu eru slegin af eins og þau leggja sig.

24.–28. gr. brytja nýju lögin um fæðingarorlof niður eins og þau leggja sig, henda út lengingunni í áföngum á næstu þremur árum og fella brott ákvæði til bráðabirgða um hvernig það komi inn. Þá er bara hálf sagan sögð vegna þess að meðferðin á tekjustofni Fæðingarorlofssjóðs er náttúrlega með endemum. Það er alveg stórfurðulegt hvað menn eru umburðarlyndir og þögulir gagnvart því hvernig ríkisstjórnin umgengst tryggingagjaldið. Það er þannig að til Fæðingarorlofssjóðs renna í ár 1,28% af tryggingagjaldsstofni. Það er rétt um 1 þús. milljarða stofn. Það er lækkað um nánast helming, niður í 0,65%. Það þýðir að tekjur Fæðingarorlofssjóðs hrynja og það þýðir að þó að dregið hafi umtalsvert úr kostnaði í kerfinu, sem er áhyggjuefni vegna þess að greinilegt er að ýmsir veigra sér við að taka fæðingarorlof, þá mun Fæðingarorlofssjóður neyðast til að ganga verulega á eigið fé strax á næsta ári. Hann klárar eigið fé sitt á um tveimur árum með þessu áframhaldi. Það er rosalegt áhyggjuefni fyrir þá sem vilja sjá einhverjar umbætur í þessu kerfi á komandi árum vegna þess að það mun auðvitað þyngja róðurinn fyrir öllum hreyfingum, hvort sem það snýst um að hækka áfram þakið eða lengja fæðingarorlofið. Það á að rústa tekjustofninn og færa þessar tekjur yfir í ríkissjóð.

Það sama er gert með Atvinnuleysistryggingasjóð og það sama er gert með Ábyrgðasjóð launa, enda er ríkissjóður að fara að seilast inn í þessa mörkuðu tekjustofna og sækja sér vel á annan tug milljarða í tekjur með því. Og aðilar vinnumarkaðarins — þaðan heyrist varla hósti eða stuna.

Það blæs ekki byrlega með því að menn geti lækkað tryggingagjaldið í heild eitthvað á komandi árum svo um munar ef þessi aðferð er notuð. Auðvitað er vandi ríkissjóðs mikill og allt það en þetta tel ég vera hörmung, frú forseti.

Að síðustu um 5. tölulið breytingartillagna meiri hlutans sem er á þskj. 316. Þar koma hin illræmdu innritunargjöld á sjúkrahús, sem er auðvitað stórpólitískt deilumál og tengist átökum um grunnskipulagið í heilbrigðiskerfinu, hvort menn vilja fara í átt til aukinnar gjaldtöku eða byggja áfram á grunni þess að við fjármögnum heilbrigðisþjónustuna með sameiginlegum sköttum og menn hafi aðgang að þjónustu í staðinn. Í öllu falli hefði átt að bíða með þetta á meðan sú endurskoðun stendur yfir á heildstæðu kerfi þeirrar greiðsluþátttöku sem er í gangi.

Að lokum vil ég nefna, frú forseti, þær breytingartillögur sem ég flyt. Þær eru ósköp einfaldar. Það er í fyrsta lagi að 17. gr. frumvarpsins falli brott, að við hættum að krukka í stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Gerum það bara. Þetta er á árinu 2015. Ég skal koma með 50 tillögur handa meiri hlutanum um það hvernig við tökumst á við þær 300 milljónir sem hugsanlega verða umfram í útgjöld á árinu 2015 þegar þar að kemur.

Að hinu leytinu til, í töluliðum 2–5 í breytingartillögu minni á þskj. 323, legg ég einfaldlega til að allar breytingar á fæðingarorlofinu falli brott og lögin haldi gildi sínu en að samþykkt verði (Forseti hringir.) hækkun á þaki á fjárhæðarmörkum í samræmi við frumvarpið.