143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir að það er þakkarvert að hæstv. fjármálaráðherra er kominn hér til umræðunnar — og svo sem ekki vegna þess að það er náttúrlega fullkomlega eðlilegt, og það sem maður gengur út frá, að bæði helstu aðstandendur mála og ráðherra viðkomandi málaflokks reyni að vera við þingstörf eins og þeir mögulega geta og alveg sérstaklega þegar þeirra mál eru á dagskrá. En það er rétt að taka fram að bæði formaður og varaformaður nefndarinnar sitja mjög dyggilega í þessari umræðu.

Varðandi hagvaxtarhorfurnar eru auðvitað verulegar blikur á lofti með það. Það hefur tafist að ESA afgreiði endanlega frá sér annan hlutann sem snýr að uppbyggingunni fyrir norðan, það ég best veit. Ég hef ástæðu til að ætla að þeir muni engar athugasemdir gera við framlag hins opinbera inn í innviðafjárfestinguna en það eru tilteknir hlutir í ívilnunarsamningnum sem þar er verið að grúska í og skoða.

Enn binda menn vonir við að tímaáætlun um að endanlegar ákvarðanir gætu orðið í febrúar, mars standist en það fer hver að verða síðastur með það. Þá munu menn væntanlega, miðað við allt sem ég veit, hefjast handa af fullum krafti á vordögum, sérstaklega varðandi undirbúninginn, þ.e. lóðaframkvæmdir, undirbúning undir hafnarframkvæmdir, vegtengingu og annað í þeim dúr.

Með Helguvík eða ígildi þess er held ég orðið alveg ljóst að þar stefnir í verulegt frávik frá þjóðhagsspánni og það er ekkert annað sem ég veit um alveg við sjóndeildarhringinn af sömu stærð þó svo að nokkrar millistórar fjárfestingar í ferðaþjónustu, hótelbyggingar og annað slíkt séu vissulega að koma. Þá þarf að setjast niður og skoða: Hvar á vöxtur að verða? Hvað á að halda uppi fjárfestingum og er þá skynsamlegt að ríkið kippi jafn harkalega að sér hendi varðandi til dæmis fjárfestingaráætlunina í einhverjum pólitískum ónotum, eins og er því miður verið að gera? Ég held að það sé þjóðhagslega mjög óskynsamlegt og um það bil það skynsamlegasta sem núverandi ríkisstjórn gæti gert (Forseti hringir.) væri að setja í gang aftur að stórum hluta til fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar.