143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þegar við ræðum áhrif fjárlagafrumvarps á verðlag í landinu og síðan kaupmátt heimilanna verði að taka allt með í reikninginn. Þegar við gerum það sjáum við að heildaráhrif fjárlagafrumvarpsins eru jákvæð fyrir heimilin í landinu og það er áður en við tökum tillit til þeirra aðgerða sem nýlega hafa verið kynntar og snúa að skuldamálum heimila, verðtryggðum skuldum og leiðum til að lækka verðtryggðar skuldir eða takast á við verðbólgubálið sem hér geysaði 2007, 2008–2010.

Vissulega er umhugsunarefni að það skuli hafa verið því sem næst föst regla í fjárlögum að hækka krónutölugjöld og skatta til samræmis við áætlaða verðbólgu næsta árs og ef til vill ættum við að taka upp þá nýju reglu (Forseti hringir.) að slík gjöld mundu aldrei hækka umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans, en ég tel hins vegar að þegar heildaráhrif frumvarpsins séu skoðuð séum við að létta undir með fólki.