143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra bar sig allkarlmannlega þegar hann ræddi um fréttir af hægagangi eða stöðnun í stóriðjuuppbyggingu, að ljósið mikla hjá þeim sem trúað hafa fyrst á það sem aflgjafa uppbyggingar og vaxtar hér í landinu væri orðið ansi dauft, ef ekki bara slokknað. Það er hætt við að það sé styttra í tárin hjá þeim heittrúuðustu eins og hæstv. iðnaðarráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur og hv. þm. Jóni Gunnarssyni og gæti þurft að fara að lána þeim vasaklút.

Þetta hefur engu að síður áhrif á þjóðhagsforsendurnar. Það er rétt að minna á í þeim efnum, og þar verður ríkið að axla sína ábyrgð, að eins og horfir munu breytingar milli ára, 2013 til 2014, frekar hafa kælandi áhrif af því að ríkið er að draga frekar að sér höndina í sambandi við opinbera fjárfestingu.

Þótt vissulega sé ánægjulegt að fá vísbendingar um að þriðji ársfjórðungur og fyrstu níu mánuðir ársins hafi verið betri vil ég líka mæla þau varnaðarorð að maður er marghvekktur á því að stökkva of mikið til þegar Hagstofan kemur með glænýjar ársfjórðungsmælingar. Við skulum hafa í huga að slíkar mælingar eru iðulega leiðréttar verulega eftir á þegar menn sjá betur í baksýnisspeglinum hvað raunverulega gerðist. Hæstv. ráðherra segir þó hér að hann telji, ef ég tók rétt eftir, að við komum inn á nýtt fjárlagaár með þokkalega miklum krafti. Það er kannski svolítið annað en maður heyrði stundum frá hæstv. fjármálaráðherra sem leiðtoga í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili þegar 2, 2,5 eða jafnvel næstum því 3% hagvöxtur eins og 2011 var algerlega ónógur. En hann hefur endurmetið þetta og það er ágætt. Við skulum vona að sem best gangi.

Ég vil gera eina athugasemd sérstaklega við samanburð sem hæstv. ráðherra fór með um framlög til rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Það er fullkomlega eðlilegt í aðstæðum eins og á Íslandi að hið opinbera leggi hlutfallslega meira af mörkum (Forseti hringir.) en í löndum þar sem risastór fyrirtæki fjármagna að stærstum hluta (Forseti hringir.) rannsóknarkostnaðinn. Við erum ung og við erum að byggja þessa starfsemi upp og þess vegna er ekki við öðru að búast en að hlutfallið þurfi að vera hátt hér á þessu tímabili.