143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hún kom inn á verðlagsbreytingar og hækkanir gjalda hjá ríkissjóði sem koma fram í þessu frumvarpi og áhrif þess á komandi kjarasamninga sem eru nú opnir, en aðilar vinnumarkaðarins eða þeir sem eru launþegamegin hafa lýst yfir miklum áhyggjum, og reyndar líka Samtök atvinnurekenda, af gjaldskrárhækkunum í þjóðfélaginu.

Mig langar að fá að heyra betur frá hv. þingmanni hvort hann telji að þetta geti verið bensín á verðbólgubálið og hvort það geti undið upp á sig ef ríkið gengur fram með þessu fordæmi. Það hefur verið látið að því liggja að hinn almenni launþegi beri ábyrgð á verðbólgu í landinu í gegnum tíðina, almennar launahækkanir í landinu, og þá kannski horft til fólks sem er ekki á mjög háum launum. Það hefur meðal annars verið ýjað að því hjá Seðlabankanum sem hvetur til þess að gerðir verði mjög hóflegir kjarasamningar og var gefin upp, að mig minnir, prósentutala í þeim efnum eða tekið undir með atvinnulífinu um að samningarnir eigi að vera innan 2% hækkunar. Við skulum heyra frá hv. þingmanni hvað hann telur um þá víxlverkun launa og verðlags sem hefur verið glíma hér í þjóðfélaginu og menn hafa kennt hver öðrum um að bera ábyrgð á því. Hvar á þessi rúlletta að enda og hver á að sýna gott fordæmi og reyna að koma á stöðugleika ef það er ekki ríkið?