143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Launafólk í landinu býr við þá stöðu að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt opinberlega að hann telji að það þurfi að fara varlega í launahækkanir. Samtök atvinnulífs hafa sagt það sama vegna þess að menn vilji ekki koma á verðbólguskriði. Á sama tíma ganga menn eins langt og mögulegt er í verðlagsuppfærslum í ríkisfjármálunum. Þetta eru kaldar kveðjur til launafólks í landinu. Enn er þrengt að kjaraviðræðum því að svigrúmið verður minna. Þótt menn nái góðum árangri er nokkuð ljóst að þetta mun hafa áhrif til hækkunar verðbólgu ásamt nýjum skuldaleiðréttingartillögum sem hafa verið kynntar. Það er óhjákvæmilegt. Þegar (Forseti hringir.) þetta tvennt leggst saman er algjörlega ljóst að ríkið er ekki að hjálpa til við að(Forseti hringir.) auka ráðstöfunartekjur heimila og ekki að hjálpa til í kjaraviðræðum.