143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé hlutverk þeirra sem bera fram þessa breytingartillögu að svara því nákvæmlega hvernig þeir hugsa komugjaldið vegna innlagnar á sjúkrahús og hvaða fjárhæð í heildina litið þeir sjá fyrir sér í því efni. Það er hins vegar gert ráð fyrir því að ráðherra ákveði þetta gjald með reglugerð og sagt að hann geti t.d. ákveðið hámark komugjalds á þá einstaklinga sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús oft á ári. Hugsanlega mætti hann þá líka hafa heimild til þess að ákveða lágmarksgjald. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig menn hugsa það en látum það liggja á milli hluta.

Varðandi það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi einnig í sínu máli, þ.e. að innheimta nefskatt eins og verið er að tala um eða hækka nefskatta þá vil ég bara leggja áherslu á það að skattkerfið er hugsað sem tekjujöfnunarkerfi, það á að vera til þess að jafna (Forseti hringir.) tekjur í samfélaginu. Þegar menn fara þá leið að leggja á skatta og vera með flata skattprósentu og lágan eða lítinn persónuafslátt og kannski engan (Forseti hringir.) þá er það ekki tekjujöfnunartæki.