143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að skólagjöld séu einhvers konar yfirhugtak og t.d. úti í Bandaríkjunum nái það til skólagjalda, innritunargjalda eða skráningargjalda o.s.frv. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður, sem er framsögumaðurinn að þessu máli, og nefndin hafi t.d. skoðað áhrif þess á Lánasjóð íslenskra námsmanna og hvort þessi gjöld, ef þau eru orðin skólagjöld í þessum skilningi, séu þá lánshæf með sama hætti og hugsanlega skólagjöld í erlendum háskólum. Það er t.d. einn angi af þessu máli og það skiptir máli hvaða merkimiða menn setja á gjöldin.

Skráningargjöld eru hugsuð til að standa undir tilteknum kostnaði við að innrita og skrá fólk í háskólann. Um þau gildir bara sú almenna regla með þjónustugjöld að þau mega ekki fara umfram þann kostnað sem þeim er ætlað að mæta. Þess vegna skiptir orðanotkunin máli.

Varðandi það á hvers lags nemendur þetta hefur áhrif, hvort það hefur áhrif á þá sem ekki ætla stunda nám af fullri alvöru, (Forseti hringir.) eins og þingmaðurinn orðaði það, þá held ég að þetta muni miklu frekar hafa áhrif á þá sem ekki hafa fjármuni (Forseti hringir.) til að reiða fram.