143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:36]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill í fyrsta lagi vekja athygli á því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt í umræðunni fyrr í dag. Sömuleiðis hefur framsögumaður málsins tekið virkan þátt í þessari umræðu.

Að öðru leyti varðandi framhald fundarins er einfaldlega ásetningur forseta að halda umræðunni áfram. Enn eru þó nokkrir ræðumenn á mælendaskrá og engin ástæða til að ljúka umræðunni núna. Það er rétt að það hafa verið kvöldfundir síðustu tvö kvöld. Í gærkvöldi stóð fundur reyndar til kl. 2 um nóttina sem í sögulegu ljósi telst þó ekkert óskaplega langt. Við þingmenn þekkjum það því miður að á þessum tíma ársins eru kvöldfundir á Alþingi ekki sjaldséðir þó að sannarlega kysi sá forseti sem hér stendur að svo þyrfti ekki að vera.