143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í efnismikilli ræðu í nótt náði ég eingöngu að fara yfir þá málaflokka sem vörðuðu velferðarnefnd. Ég ræddi lög um málefni aldraðra, lög um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, lög um fæðingar- og foreldraorlof, lög um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, lög um sjúkratryggingar og lög um slysatryggingar og lögboðna ábyrgðartryggingu.

Ekkert af þessum málum hefur verið sent velferðarnefnd til umsagnar. Ég harma það, forseti, og ítreka að ætli hæstv. fjármálaráðherra sér að breyta lögum á málefnasviði velferðarnefndar tryggi hann að þau mál verði send í þá nefnd en ekki pakkað inn í bandorm um olíugjald.

Ég greiði atkvæði hér, tek þátt í atkvæðagreiðslu og mótmæli henni ekki í ljósi þess að hv. formaður nefndarinnar tók vel í beiðni mína, hefur farið yfir málið með nefndarmönnum og mun tryggja að velferðarnefnd fái að fjalla um málið fyrir 3. umr.