143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir framsöguræðu hennar. Hún talar hér fyrir áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar.

Miklu samdráttarskeiði velferðarstjórnarinnar, sem í sátu Samfylking og Vinstri grænir, er sem betur fer að ljúka. Það sýnir fjárlagavinnan. Það virðist vera að koma viðspyrna.

Það er á einhvern hátt þannig að hvorki er hægt að líta til nútíðar né framtíðar fyrir fyrri ríkisstjórnarflokkum. Það kom bersýnilega í ljós í fyrri hluta ræðu þingmannsins.

Það þýðir ekki að syrgja að ekki hafi verið farið í ólöglegt aukaveiðigjald, eins og Samfylkingin og Vinstri grænir lögðu til á síðasta kjörtímabili til tekjuauka fyrir ríkissjóð, vegna þess að það var einfaldlega ekki framkvæmanlegt. Hér á þinginu komu fyrri stjórnarflokkar þessum ólögum í gegn. Á það skal minnst, virðulegi forseti, að því gjaldi sem Samfylkingin og Vinstri grænir ætluðu að sækja er útgerðin að skila í auknum skatttekjum. Það er ómögulegt að ætla einhvern veginn að reyna að leiðrétta þennan misskilning hjá þessum flokkum því að sami söngurinn er sunginn aftur og aftur og líklega trúa þingmenn þessara flokka að þetta sé satt, en staðreyndin er önnur.

Ég ætla ekki að fara líka yfir sorgina yfir því að hér var ekki lagður virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna.

Staðreyndin er sú að yfirstandandi ár var rekið með 20 milljarða kr. tapi og það er viðskilnaður síðustu ríkisstjórnar við ríkisfjármálin.

Mig langar að spyrja í framhaldi af þessu: Hvað sér þingmaðurinn því til fyrirstöðu að núverandi meiri hluti fjárlaganefndar geri það að tillögu sinni að færa þróunaraðstoð Íslendinga niður í sömu prósentutölu af þjóðartekjum og var 2011 og 2012 þegar Samfylking og Vinstri grænir (Forseti hringir.) voru í ríkisstjórn?