143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð þó að viðurkenna að mér fannst hv. þingmaður skauta nokkuð létt frá viðskilnaði síðustu ríkisstjórnar, en ég hef betra tækifæri til að fara yfir það seinna í dag og á morgun, í það minnsta.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í þrjú atriði. Hv. þingmaður nefndi réttilega vanda Íbúðalánasjóðs og tilgreindi að ef áætlanir fara fram sem horfir — mér sýnast að vísu komnar 60 þús. millj. í hann frá árinu 2008. Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju var ekki gripið til neinna aðgerða sem duga á síðasta kjörtímabili, því að það hefur verið fyrir séð í mjög langan tíma hver vandi Íbúðalánasjóðs er? Ég spurði sjálfur hvað eftir annað, tók það upp í þinginu en gert var lítið úr vandanum sem hv. þingmaður bendir réttilega á að er gríðarlegur. Vandinn er eitt af því sem síðasta ríkisstjórn lét eiga sig að taka á og þessir gríðarlegu fjármunir, sem slaga hátt upp í nýjan landspítala, duga ekki til að leysa hann.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann út í sjónarmið hans varðandi markaðar tekjur. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því að 1/5 af ríkistekjunum eru svokallaðar markaðar tekjur?

Að lokum vil ég spyrja út í Ríkisútvarpið. Hv. þingmaður sagði að það skipti máli að útvarpsgjaldið væri ekki skert því að hætta væri á því að það yrði þá háð duttlungum stjórnmálamanna, ef ég vitna rétt í hv. þingmann. Ég vil spyrja: Fór allt útvarpsgjaldið til Ríkisútvarpsins í tíð síðustu ríkisstjórnar?