143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ef marka má nefndarálit 1. minni hluta þá verða framlögin í Íbúðalánasjóð 69 þúsund millj. kr. Það er augljóst að ekki var tekið á vanda sjóðsins á síðasta kjörtímabili.

Ég spyr líka að þessu vegna þess að hér fór hv. þingmaður yfir mörkuðu tekjurnar. Við erum hér að tala um fjarskiptasjóð sem er með opinn tékka á Farice og mér fannst hv. þingmaður skauta ansi létt í gegnum þann vanda í ræðu sinni og í umræðunni hér. Ég er ansi hræddur um að við séum með annan lítinn Íbúðalánasjóð í Farice, ég vona að það sé ekki jafn stór upphæð. Ef menn vilja tala um ríkisfjármálin af einhverri ábyrgð þá eiga menn að horfa á vandamálið og tala um það. Við verðum að leysa það.

Svo bíð ég eftir svari hv. þingmanns út af útvarpsgjaldinu. (Forseti hringir.) Ég spurði að því hvort allt útvarpsgjaldið hafi farið til Ríkisútvarpsins á síðasta kjörtímabili.