143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú sem hér stendur hefur alltaf sagt að ef það væri hægt að leggja skatt á skuldir þrotabúanna, ef það væri löglegt og tæknilega mögulegt, ætti að gera það. En það var með þrotabúin eins og svo margt annað — heimilin og fyrirtækin og ríkissjóð í rauninni — fram eftir síðasta kjörtímabili, að erfitt var að vita hver skuldaði hvað í þessu landi. Þannig var staðan hjá okkur. Og skattstofninn undir sérstaka bankaskattinum sem á að skattleggja þrotabúin um er skuldir þrotabúanna. Núna eru þær skilgreindar í rauninni, það er nokkurn veginn komin skilgreining á stofninum sem leggja á skattinn á. Það var ekki raunin framan af síðasta kjörtímabili og það er ástæðan fyrir því að ekki var hægt að gera þetta. Við hefðum svo sannarlega haft þörf fyrir þá aura þegar staðan hér var sem erfiðust.

Hv. þingmaður talar um veiðileyfagjaldið og þann afslátt sem gefinn hefur verið á því og spyr hvernig þetta sé hugsað í breytingartillögum. Við miðum við tillögur minni hluta atvinnuveganefndar um veiðigjald sem lagðar voru fram í sumar. Þar er aukinn afsláttur fyrir lítil fyrirtæki og meðalstór. Frímarkið er fært upp þannig að það nái yfir ef ég man rétt um 400 fyrirtæki, (Forseti hringir.) en annars er tafla yfir þetta í áliti minni hlutans vegna fjáraukalagafrumvarpsins þannig að þar getur hv. þingmaður séð hvernig þetta er hugsað.