143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Munurinn er í rauninni sá, eins og ég hef hér komið inn á, að fyrri ríkisstjórn fór hina blönduðu leið. Við skárum niður en við jukum tekjur. Eins og þetta lítur út núna þá er aðalmálið að finna peninga í kerfinu. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að finna peninga í kerfinu en ekki að ná sér í viðbótartekjur. Við erum búin að fara yfir það hvernig við teljum að hér hafi tekjum verið fórnað í sumar.

Svo getum við auðvitað líka velt fyrir okkur: Eru einhverjar framkvæmdir í gangi sem nýja ríkisstjórnin hefur stuðlað að og sett af stað? Nei, það held ég ekki. Ég held að hún hafi slegið af það sem áður var búið að gera ráð fyrir.

Ég veit ekki alveg hvaða leið fólk ætlar að fara til að örva hagkerfið ef eingöngu á að lækka skatta á millistéttarfólk eða atvinnulífið.