143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:50]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir málefnalega og nokkuð jákvæða ræðu, enda bjóst ég ekki við öðru frá honum en málefnalegum umræðum. Ég þakka honum og hans flokki fyrir að halda þannig málflutningi hér á þingi, vera ekki að velta sér upp úr gömlum lummum.

Ég verð nú að segja að orðið „heimili“ truflar mig ekkert. Ég verð ekki var við annað en að eftir síðasta útspil með skuldaleiðréttingu hafi fólk fengið von. Fólk fékk von og framtíðarsýn. Gamalt máltæki segir: Bóndi er bústólpi og bú er landstólpi. Við byggjum þetta þjóðfélag ekki upp á öðru en heimilunum. Hlúum að heimilunum og þá kemur hitt.