143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og yfirferð. Mig langar einmitt að taka aðeins upp það sem hún og við höfum rætt töluvert í þingsölum er varðar meðal annars Tækniþróunarsjóð. Nú var okkur fjárlaganefndarfólki að berast áskorun og ítrekun um að hvetja ríkisstjórnina til að snúa til baka af þessari leið. Eins og kom fram áðan er þetta að skila sér margfalt til baka og hér er tekið dæmi af einu fyrirtæki sem skilaði 217 milljónum umfram það sem það fékk í ríkisstyrki. Því skilur maður ekki alveg að ríkisstjórnin skuli vilja fara þessa leið og telji það vera í rauninni sparnaðaraðgerð. Af því að það hefur nú töluvert verið talað um að afsala sér tekjum, þá er þetta einn hluti í því að mínu mati og margra annarra sýnist mér vera. Ég tek því undir það með hv. þingmanni.

Mig langar að lesa það sem er í þessu erindi, með leyfi forseta:

„Við þurfum einfaldlega að snúa vörn í sókn í harðri samkeppni við nágrannaþjóðir um fólk og fyrirtæki í nýsköpun. Framangreindur niðurskurður er ekki sóknarleikur heldur lélegur varnarleikur og örugg uppskrift að minni tekjum ríkissjóðs til bæði skamms og langs tíma.“

Þetta er það sem við hér í minni hluta höfum töluvert verið að predika og af því að við vorum nú gagnrýnd fyrir það að missa fólk töluvert úr landi.

Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um í þessu fyrra andsvari er um veikleika frumvarpsins, af því að hv. þingmaður átti hér orðastað í hádeginu við hæstv. iðnaðarráðherra, hvort hún telji að þar sem Helguvík virðist vera úti, a.m.k. í augnablikinu, að það veiki forsendur frumvarpsins. Alveg eins má segja með Seðlabankann, þ.e. lánin til Seðlabankans og bankaskattinn, (Forseti hringir.) skuldaleiðréttingu, lausa kjarasamninga, eru þetta ekki allt veikleikar í frumvarpinu?