143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem beið fráfarandi ríkisstjórnar var 216 milljarða mínus og það var dálítið hressilegt verkefni, og kannski ekki síst fyrir vinstri stjórn, að taka að sér að reyna að loka því gati. Það var ekkert auðvelt, en af því að hv. þingmaður spyr hvaða strategía liggi þar að baki, eða eigum við að segja áætlanagerð og markmið ef við reynum að íslenska það, þá var það einfaldlega þannig að tekin var ákvörðun um að í niðurskurðinum yrði hagrætt eins víða og hægt væri, t.d. var ráðuneytum fækkað. Það var líka tekin ákvörðun um að taka meira á þeim sviðum sem ekki heyra beinlínis undir grunnþjónustuna þannig að ekki var skorið jafn mikið niður alls staðar. Það var líka tekin ákvörðun um að hlífa samkeppnissjóðunum á versta niðurskurðarárinu og þá var m.a.s. aukið örlítið í t.d. Tækniþróunarsjóð því að menn voru að reyna að búa til vöxt í gegnum hann.

Það var því tekin svona ákvörðun og ég held að kannski hefði verið betra, af því að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um opna vinnuferla og það er ég líka, ef fráfarandi ríkisstjórn hefði náð að kynna betur hvernig þetta var allt gert. Ég held að umræðan hefði verið önnur. Mögulega eigum við núna, til lengri tíma litið, að nýta netið betur til þess að gera það gagnsærra og opnara sem við erum að gera og sem við erum að fást við. Eins og til dæmis þær tölur sem hv. þingmaður nefnir hér, að það hafi verið vinstri stjórn sem lokaði eða fór svona langt með að loka þessu stóra gati — það snerist ekkert um það vegna þess að ef það er ekki gert, ef gatinu hefði ekki verið lokað og ef því verður ekki lokað munu lífskjör (Forseti hringir.) hér ekki batna. Þess vegna er lykilatriði að ná að loka gatinu.