143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst lítillega vegna ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur við upphaf umræðunnar um það hvernig mál hafi verið afgreidd út úr fjárlaganefnd í gærkvöldi. Það hlýtur einfaldlega að byggja á einhverjum misskilningi vegna þess að það er algjörlega óhugsandi að hluti nefndarmanna geti bundið annan hluta nefndarmanna trúnaði um nefndarálit sem þeir hafa með formlegum hætti afgreitt út úr nefnd. Þannig gengur það auðvitað ekki fyrir sig. Plaggið er út af fyrir sig ekki opinbert plagg fyrr en það hefur verið prentað sem þingskjal en öllum nefndarmönnum er auðvitað frjálst að fjalla um það sem fram fer á nefndarfundum Alþingis og þar kemur fram og þá afstöðu sem meiri hlutinn í þeirri nefnd tjáir og getur enginn bundið þjóðkjörinn fulltrúa trúnaði um svo augljóslega opinberar upplýsingar um almannahagsmuni. Þetta hlýtur því að byggja á einhverjum misskilningi.

Ég vildi kveðja mér hér hljóðs vegna IPA-hringavitleysunnar sem satt að segja er farin að sýna nokkra skopmynd af okkur Íslendingum og ráðaleysi stjórnvalda þar sem allir standa ráðþrota andspænis spurningunni: Hvað er það eiginlega sem Ísland vill? Hvað er það eiginlega sem ríkisstjórnin vill? Vill hún aðildarviðræður við Evrópusambandið? Eða vill hún þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður? Eða vill hún hætta aðildarviðræðum eða vill hún hafa áfram: Afsakið, hlé? Vill hún fá IPA-styrki eða vill hún bara fá gamla IPA-styrki eða vill hún alls ekki eldvatn og glerperlur?

Virðulegur forseti. Þessi skrípaleikur allur sýnir okkur og á að hvetja stjórnarliða til að setja þetta mikilvæga hagsmunamál aftur í ferli, leyfa vilja þjóðarinnar í þessu máli að ná fram að ganga, ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og losa okkur við úr þjóðmálunum þetta áratugagamla deilumál með því að þjóðin fái einfaldlega að skera úr um það í allsherjaratkvæðagreiðslu hvort hún vill fallast á samning og ganga í sambandið (Forseti hringir.) eða ekki.