143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nákvæmlega það sem við skulum gera. Það var tekin um það ákvörðun á sínum tíma — hvað var það, 2006 eða 2007? — að leggja hinn afkastamikla og dýra streng Danice og stórbæta þar með fjarskiptasamband Íslands við útlönd og auka öryggi. Það var meðal annars og ekki síst gert vegna þess (Gripið fram í.)að það var forsenda þess að hér gæti risið upp gagnaveraiðnaður, (Gripið fram í.) sem margir hafa trú á og ég hef enn trú á að geti átt eftir að blómgast.

Síðan varð hér eitt stykki hrun, fyrirtæki lentu í miklum erfiðleikum og auðvitað héldu fjárfestar að sér höndum og nýtingin á strengnum óx ekki eins og menn höfðu vonast til og gert ráð fyrir. Hvað átti þá að gera? Hv. þingmaður kemur sér undan því að svara því, hefur bara stór orð uppi og hrópar að öðrum. En hvað átti að gera? Átti að slökkva á strengnum? Átti að láta setja hann á nauðungaruppboð með ríkisábyrgð á hluta af lánunum; og við í samstarfi við Færeyinga meðal annars um hluta af málinu? Nei, auðvitað var það ekki hægt. Auðvitað gengu menn í að leysa þetta mál. Það var ekkert annað að gera og hv. þingmaður ætti að venja sig af því að vera með stóryrði um hluti sem hún ætti kannski aðeins að hugsa um áður en hún tjáir sig. (Gripið fram í.)