143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir gríðarlega mikilvæga og yfirgripsmikla yfirferð um þróunarsamvinnuna og þá styrki sem við settum í hana, þá stefnumótun sem hefur átt sér stað og hversu mikið þetta er þegar við reiknum það í prósentum.

Ég held að það sé mikilvægt að fram komi að vilji fyrrverandi ríkisstjórnar var til þess að halda þarna ákveðnum tölum að lágmarki og vinna markvisst að því að auka framlög til þróunarsamvinnu. Hér er verið að klippa á þráðinn. Það sem er ósmekklegt í allri umræðu um fjárlögin er að segja: Við erum að færa frá samvinnunni yfir í þetta eða hitt, það er sagt að við séum að velja á milli fátækra barna í Afríku og barna á Íslandi, og verið að ala á einhverjum slíkum samanburði. Auðvitað er lítilmótlegt að stilla þessu ekki þannig upp að við ráðum ágætlega við að berjast gegn fátækt bæði innan lands og erlendis og eigum að reyna að nálgast það þannig.

Það er hægt að segja að þessi fjárlög sem við höfum verið að skoða séu á fullri ferð því það eru alltaf að koma nýjar og nýjar athugasemdir. Það sem vekur áhyggjur manns er að uppgötva fleira og fleira neikvætt í þessum fjárlögum. Eitt af því sem ég var að uppgötva, af því að við fengum loksins tækifæri til að fjalla um mennta- og menningarmálin með ráðuneytunum, eru þær breytingar sem þar er verið að gera. Eitt af því sem ég hafði ekki fyllilega áttað mig á er að það er verið að setja upp nýja skrifstofu í forsætisráðuneyti, án þess að færa neitt starfsfólk frá menntamálaráðuneyti, til að sinna menningarmálum og menningarstjórn þar. Í það eru áætlaðar 16 millj. kr. Síðan er talað um fjárfestingaráætlun og að hún hafi ekki verið fjármögnuð, en svo segja menn: Við tökum 280 millj. kr. sem áttu að fara í græna hagkerfið og við ætlum að nota peningana annars staðar — peningana sem voru ekki til og fjárfestingaráætlun felld niður þess vegna.

Mig langar aðeins að heyra frá hv. þingmanni vangaveltur um þetta. Mér finnst menn leggja fram mál hér á þingi (Forseti hringir.) bókstaflega með óheiðarlegum hætti, bæði með því að tengja saman hluti sem eru ekkert skyldir og búa til nýjar stofnanir, setja nýja aðstoðarmenn og bæta við ráðuneytum og segja svo: Við eigum ekki fjármagn, en nota það engu að síður í fjárlögunum eins og fé úr fjárfestingaráætluninni.