143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar að inna hann eftir öðru. Honum var tíðrætt um byggingu nýs Landspítala og ég þarf líklega ekki í löngu máli að sannfæra hv. þingmann um að ég er honum sama sinnis í því máli, ég tel að við eigum að vera löngu, löngu farin af stað.

Mig langar að inna hann eftir því hvort hann telji að enn þá sé möguleiki með góðu samkomulagi á þingi í kringum þessi fjárlög að ákveða að byrja byggingu Landspítalans á næsta ári. Það væru virkilega góð skilaboð til heilbrigðiskerfisins í heild og það væri sennilega besta jólagjöf sem þjóðin gæti gefið sjálfri sér.