143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum spurningarnar. Það kom ekki fram að öðru leyti en því að þegar ráðuneytin ræddu þetta, og þau ræddu það ekkert formlega, kom það, eins og ég sagði, mjög flatt upp á þau. Þetta gerist alveg á síðasta augnablikinu áður en málið er tekið út úr nefndinni og maður hafði það á tilfinningunni að verið væri að redda þarna aurum eða búa til eitthvert gott útlit, yfirbragð, að skera niður í Stjórnarráðinu eða einhverju slíku, yfirstjórn. Ég veit það eiginlega ekki alveg, ég held að það sé engin stefnumörkun. Það virkar að minnsta kosti þannig á mann. Þetta er ekki útpælt og það liggur ekki fyrir, við höfum að minnsta kosti ekki séð það. Ég get sagt svo mikið að við höfum ekki séð neitt sem segir að þetta verði svona og svona, þessi 5% þýði þetta eða við erum búin að leggja þetta niður fyrir okkur og það verður svona.

Þetta er auðvitað í ofanálag við það sem áður var boðað. Það má ekki gleyma aðhaldskröfunni sem kemur fram í frumvarpinu sjálfu. Þetta er ofan á hana og ég tek undir það að ef fella á niður verkefni, t.d. PISA, mundi ég vilja fá að hafa skoðun á því, ef það væri tillaga ráðherra eða embættismannanna í staðinn fyrir að segja upp einhverjum að hætta við þetta eða hitt verkefnið sem við sem þing erum búin að samþykkja eða þeir sem voru hér á undan okkur. Ég held að klárlega sé hægt að segja að gengið væri fram hjá þinginu með því ef það væri niðurstaðan.

Nei, það kom nefnilega ekki fram með rannsóknastofnanir atvinnuveganna og ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir því með hvaða hlutverk hún fer, hvað það er sem þarna er undir. Það er akkúrat þetta sem hv. þingmaður nefnir; eigum við að taka fjármuni úr Tækniþróunarsjóði (Forseti hringir.) sem þó hefur verið skorinn mikið niður nú þegar?