143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að ég og hv. þingmaður deilum áhyggjum af þessu. Ég held líka að 500 milljónir séu lítið borð fyrir báru. Það er svo margt sem er óraunhæft þarna inni, óraunhæfar áætlanir og svo þegar í þokkabót er verið að eyðileggja, að því er virðist einungis af því að það var ákveðið af fyrri ríkisstjórn, alls kyns áform um fjárfestingarverkefni, sóknaráætlanir og samkeppnissjóði sem sýnt hefur verið fram á að skila gríðarlegum arði inn í þjóðarbúið er þetta náttúrulega ekki mjög sjálfbær stefna til frambúðar.

Mig langar í seinna andsvari mínu að nefna við hv. þingmann vegna hugmyndafræðinnar sem nú er komin inn — sem er svolítið hláleg samhliða því að við ætlum að ná hallalausum fjárlögum, það er ekki góð leið að draga mikið úr skattlagningu heldur þarf það að gerast á tímapunkti þegar við erum komin á betra ról með ríkisfjármálin — en verið að lækka skatta víða. Veiðigjöld á útgerðina eru að sjálfsögðu umfangsmest þar og svo er það á ferðaþjónustuna, gistinguna, augljósir tekjustofnar þarna, það er ekki verið að framlengja auðlegðarskattinn og svo er einhver tekjuskattur til almennings.

Hvað gerist? Hvað er skýrasta dæmið um tilfærslu þá á skattheimtu? Að ég fæ að borga örlítið lægri skatt en gamalt fólk og langveikt og fólk sem lendir í því að veikjast borgar í staðinn sjúklingaskatt. Það er þá fært úr hinu almenna skattkerfi yfir í þjónustugjöld og sjúklingaskatta í þessu tilfelli. Telur þingmaðurinn þetta ekki vera blekkingaleik (Forseti hringir.) varðandi skattalækkanir?