143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp og kveð mér hljóðs aðallega til að ræða þá stöðu að það lítur út fyrir að hér náist að ljúka þinghaldi fyrir jól eftir að forustumenn stjórnmálaflokkanna komu sér saman um ákveðnar umbætur á því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir. Mig langar að nota tækifærið og ítreka það hversu miklu það skiptir að hlusta eftir þeim málflutningi sem heyra má úti í samfélaginu. Ég vil sérstaklega nefna tvö mál í þeim efnum og það er auðvitað desemberuppbót fyrir atvinnulausa sem því miður var felld hér í síðustu viku en hefur nú náðst samkomulag um að koma á aftur. Það er alveg gríðarlega stórt mál fyrir stóran hóp fólks sem skiptir miklu máli. Þá skiptir einmitt miklu að við hlustum eftir slíkum málflutningi.

Hitt snýr að komugjöldum eða legugjöldum á sjúkrahúsum. Það er annað gríðarlega stórt grundvallaratriði sem er hvergi nærri fullrætt hér í þinginu, á hugsanlega eftir að ræðast aftur síðar og þá í betra tómi. En þetta ætti að vera okkur ákveðin áminning um að slík grundvallaratriði á ekki að taka upp í kringum stór mál á borð við fjárlög og reyna að keyra í gegn heldur á að gefa þeim þá umræðu sem þau þurfa. Þarna er um að ræða, að mínu viti, grundvallaratriði í því hvernig við byggjum upp okkar heilbrigðiskerfi. Það stendur yfir ákveðin þverpólitísk vinna um hvernig sjúklingar eigi að taka þátt í kostnaði í heilbrigðisþjónustunni og þar eigum við auðvitað að reyna að ná einhverri niðurstöðu. Það kann að vera að hún náist ekki í sátt. Mitt sjónarmið og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að kostnaðarþátttaka sjúklinga eigi að vera sem minnst, hana eigi að jafna niður á við en ekki upp, en það skiptir mjög miklu að við gefum að minnsta kosti umræðunni tíma til að fara fram.

Ég fagna því ef við náum samkomulagi um að leyfa henni að fara fram áður en svona stórákvarðanir eru teknar.