143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mikill áfangi er að verða að veruleika, atkvæðagreiðsla um fjölmargar breytingartillögur við fjárlög brátt að ganga í garð. Ég hef talað hér um að ytri rammi fjárlaganna sé traustur og gríðarlegar framfarir þar á mörgum sviðum. Það sannast enn og aftur að við getum haldið okkur við hallalaus fjárlög þrátt fyrir þessar umbætur og við höldum meginstefinu hvað varðar heimili og velferð.

Undanfarna daga hafa átt sér stað ágætar umræður á köflum og málefni hafa verið reifuð en ég hef furðað mig á einu. Öryggisnet hverrar velferðarþjóðar sem er almannatryggingar hefur lítið sem ekkert verið til umræðu. Almannatryggingakerfi er meðal annars til þess að koma til stuðnings fólki sem veikist, slasast eða eldist. Frá árinu 2006 hafa framlög til almannatrygginga tvöfaldast úr 40 milljörðum í 80 milljarða fyrir árið 2014. Aukningin er rúmir 8 milljarðar núna bara á milli ára, 11–12%.

Virðulegi forseti. Þetta er velferð. Fyrrverandi ríkisstjórn óf vissulega líka í þetta öryggisnet, en núverandi ríkisstjórn með félagsmálaráðherra í broddi fylkingar ásamt öflugum stuðningi hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að þétta möskvana svo færri detti á milli. Aldraðir urðu til dæmis einmitt fyrir því árið 2009 að falla. Þessa aðgerð, þessa aukningu kalla ég miklu frekar umbyltingu en hækkun á fjárlögum.

Þá er ég afar ánægð með tilboðin sem formenn stjórnarflokkanna spiluðu út í gær og sýna vilja ríkisstjórnar í verki til góðra hluta fyrir land og þjóð.