143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Eins og svo margir aðrir í þessum ræðustól í dag vil ég lýsa yfir ánægju minni með það samkomulag sem náðist í gærkvöldi. Ég vil líka taka undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, auðvitað er sorglegt að við skyldum ekki geta gert miklu fyrr það sem gerðist hér í gær. Á þeim tíma sem ég hef verið á þingi hefur því miður verið endurtekning á dagskrárliðum í aðdraganda jóla, menn hafa sett sig í þær stellingar sem voru komnar hér upp í gær og síðustu daga og búið til þrýsting til að ná samningsstöðu og samið síðan um þinglok.

Ég held að það væri miklu farsælla fyrir okkur öll ef við næðum fyrr í ferlinu að eiga þetta samráð. Þegar upp er staðið er það sem deilt er um hér í þessari lokahrinu ekki mjög háar upphæðir þó að menn deili auðvitað um mjög háar upphæðir í fjárlagafrumvarpinu í heild sinni. Um þær upphæðir hafa í sjálfu sér ekki verið nein átök á milli manna í umræðum síðustu daga í forustu flokkanna. Það er auðvitað á ábyrgð stjórnarmeirihlutans að fara hér í gegn með fjárlög sín og áherslur og það er auðvitað á ábyrgð okkar sem erum í minni hluta að tala fyrir okkar stefnu, koma með okkar áherslur.

Björt framtíð, sá flokkur sem ég tilheyri, hefur lýst því yfir að hún muni ekki taka þátt í þeim vinnubrögðum að hertaka pontuna til að skapa stöðu. Hún gerir ráð fyrir því að það sé haft samráð við minni hlutann um áherslur fjárlaga. Þetta er grundvallarplagg í rekstri ríkisins og í því samfélagi sem við rekum og það er skylda allra sem koma að stjórn landsins að tryggja að samráð sé haft um það. Það er það sem við göngum út frá að sé staðreyndin og það er sá lærdómur sem við eigum að draga fyrir næsta ár af þeirri stöðu sem upp kom hér á síðustu dögum.