143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja hér máls á grein sem birtist á heimasíðu Morgunblaðsins, mbl.is, sem ber nafnið „Ólíklegt að umsóknin haldi áfram“. Evrópusambandið er sem sagt búið að taka ákvörðun um það langt á undan okkur að hætta viðræðum við Ísland um aðild að Evrópusambandið. Það rekur fjölda ástæðna fyrir því af hverju viðræðurnar munu ekki halda áfram og af hverju þær ættu ekki að halda áfram. Þegar þeir hafa komið með eina staðfestingu, þá finna þeir bara næstu og næstu. Þessi grein byggir á skýrslu sem var gerð fyrir Evrópuþingið í aðdraganda fundar sameiginlegu þingmannanefndar þess og Alþingis sem fram fór 27. nóvember sl. Þar kemur fram að þeir líta svo á að viðræðunum hafi verið hætt. Það sem á eftir kemur sýnir að fullveldi Íslendinga hefur aldrei verið sterkara en nú. Við unnum sambandið í málaferlum. Ef við förum aftur í skýrsluna er verið að segja að landið hafi risið vegna þeirra aðgerða sem Ísland gat gripið til út af sjálfstæði sínu með eigin gjaldmiðil en þar segir, með leyfi forseta:

„Þetta litla norræna land hefur að mestu náð sér á strik eftir djúpstæða efnahagserfiðleika sem þakka má gengisfelldum gjaldmiðli og miklum viðskiptaafgangi — viðsnúningur sem var mögulegur að hluta til vegna þess að landið stendur utan við evrusvæðið.“

Svo halda þeir áfram og benda á að vegir okkar eru opnir til allra átta og við eigum auðveldara með að gera samninga við aðrar viðskiptaþjóðir og annað slíkt út af sjálfstæði okkar. Við skulum bara viðurkenna þetta og hætta þessum leik hér.