143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

209. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er komið hér til 2. umr. Það er flutt af atvinnuveganefnd og var gerð góð grein fyrir því þegar mælt var fyrir málinu. Það hefur kostað nokkra umræðu í samfélaginu og hefur af einhverjum verið gagnrýnt. Nefndin hefur unnið málið ágætlega, í raun og veru framhald vinnu frá atvinnuveganefnd á síðasta vetri, og það hefur verið samhljómur um afgreiðslu málsins í nefndinni.

Hér erum við að gera þá breytingu frá lögunum sem voru afgreidd síðastliðinn vetur að sektarákvæðinu er frestað til 1. október 2014 en lögin taka gildi um áramót. Þetta var gert eftir að athugasemdir komu fram, sem voru mest tæknilegs eðlis, sem sneru að því hvernig olíufélögin stæðu að því að breyta hjá sér tönkum og öðru gagnvart þeim efnum sem notuð verða til íblöndunar eldsneytis, eins hvernig geymsla á þessu fer fram, t.d. í Örfirisey þar sem þarf að gera ákveðnar ráðstafanir til lengri tíma. Það kom einnig fram að þar sem um er að ræða íblöndunarefni sem þurfa aðrar aðferðir og önnur efni til þess að slökkva eld, myndist hann, krefjast slík atriði ákveðins undirbúnings.

Almennt séð voru ekki miklar athugasemdir frá olíufélögunum um málið. Sum þeirra hvöttu hreinlega til þess að þetta yrði gert og einhver olíufélaganna hafa þegar uppfyllt þau skilyrði sem hér er kveðið á um og önnur hafa verið að undirbúa þá breytingu. Það sem kom fram við umfjöllun málsins hjá nefndinni er að í þessu geta falist veruleg sóknarfæri fyrir innlendan iðnað, innlenda verðmætasköpun og það er auðvitað mjög áhugavert að fylgjast með því að fyrirtæki, bæði í framleiðslu á lífdísil og metanóli, eru að hasla sér völl hérlendis og það má reikna með því að framleiðsla þessara fyrirtækja geti numið 70 miljónum lítra árið 2017. Það er auðvitað mjög jákvætt, sérstaklega ef framhald verður á. Það er með ólíkindum að við skulum jafnvel sjá þann möguleika í hendi að árið 2020, ef áform ganga eftir, geti verið framleiðsla innan lands á eldsneytisgjöfum, meira að segja vel á annað hundrað milljóna lítra, sérstaklega þegar haft er í huga að það eldsneytismagn sem við notum á bíla, dísilolía og bensín, nema kannski um 300 eða rúmlega 300 milljónum lítra á ári.

Ég held að ég hafi í sjálfu sér ekki neinu að bæta við umræðuna og greinargerðina sem farið var yfir þegar mælt var fyrir málinu á sínum tíma og læt þessa umfjöllun duga.