143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fjárlögum fyrir árið 2013 var gert ráð fyrir rúmlega 200 millj. kr. til að byggja verknámshúsið við Fjölbrautaskóla Suðurlands og 90 millj. kr. samkvæmt áætlun árið 2014. Það var hins vegar tekið út og ný ríkisstjórn sagðist ætla að geyma þessa framkvæmd. Sem betur fer eru hér komnar 100 millj. kr. til að hreyfa við framkvæmdinni. Vandinn er hins vegar sá að ekki er til áætlun um hvernig eigi að ljúka málinu og þess vegna mun ekki vera hægt að fara í útboð með verkið. Einungis verður hægt að klára tækniteikningar og það sem að því lýtur (Gripið fram í.) en áætlun þarf að liggja fyrir þannig að útboð geti farið fram. Ég vænti þess þá að sú áætlun birtist sem fyrst.