143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér eiga sér stað ágætisskoðanaskipti. Um þessa hluti höfum við tekið nokkrar sennur og augljóslega ekki komist að sömu niðurstöðu. Þrátt fyrir að við séum, að ég held, með svipaðar upplýsingar er túlkun okkar mismunandi. Það gefur kannski til kynna að eitthvað sé ekki eins og það á að vera; ég veit ekki hvort það er í lagaumhverfinu eða hvað.

Í upphafi gagnrýni ég þessa umræðu og þann tíma sem við höfum haft til umfjöllunar um þessi fjáraukalög. Við hefðum öll viljað hafa umræðurnar meiri geri ég ráð fyrir. Þetta var svolítið snarpt svona í restina.

Varðandi þá umræðu sem síðast varð um framhaldsskólana þá er það alveg rétt að við áttum ítarlega umræðu um þetta í fjárlaganefnd og fólk var almennt ekki sátt við að gera þetta. Ég held að allir nefndarmenn hafi haft einhverjar efasemdir um það. Samt sem áður var þetta sett inn í nefndarálit. Ég veit ekki betur en hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, sem leysti mig af þennan laugardagsmorgun, hafi komið fram með spurningar sem urðu þess valdandi að í framhaldinu var óskað eftir Ríkisendurskoðun til að fara betur ofan í þessi mál og þá fyrst og fremst til að vita hvort þetta stæðist lagalega. Það varð niðurstaðan að það var ekki, að sópa saman úr ýmsum áttum og búa til nýjan lið. Og það er gott að við komumst að þeirri niðurstöðu og gátum leiðrétt það. Ég held að það hljóti að vera jákvætt og það sé það sem við erum að reyna að gera.

Hér var komið inn á að það væri ekki í anda fjárreiðulaga, þetta með Fjarskiptasjóð. Þar greinir okkur aftur á, við teljum að þetta sé ekki sambærilegt mál. Ég ætla ekkert að fara dýpra ofan í það en hér hefur verið gert. Við höfum talað mjög mikið fyrir því að Fjarskiptasjóður geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Hvað þarf til þess að það verði, það er kannski næsta verkefni okkar í fjárlaganefnd að skoða ef sjóðurinn getur ekki sinnt sínu hlutverki út frá þeim lögum sem hann er undir í dag. Ég held að það hljóti að vera forgangsverkefni fremur en að deila um það að allt sem inn í hann komi, hvort sem það eru markaðar tekjur eða ekki, renni beint í samninginn við Farice. Ég trúi ekki öðru en að þingmenn séu sammála um það.

Varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og Bolungarvíkurmálið er það svo að þegar það mál var borið upp við mig — við fengum á fund nefndarinnar fulltrúa sveitarfélagsins til að fara yfir þessi mál; þeirra afstöðu og þeir röktu sína sögu. Síðan var komið að máli við mig og farið aðeins yfir þetta. Í framhaldinu óskuðum við í minni hlutanum eftir því að fá nánari gögn. Hér er það rakið hvers vegna við vildum fá viðbótargögn og ég held að það sé ekkert að því. Ég held að það sé heppilegra að það liggi fyrir að við getum skoðað þetta betur og ekki hefur allt komið fram sem hér er ágætlega til tekið. Það er líka áhyggjuefni fyrir okkur ef það er svo að nefnd sem fer fyrir hönd ríkisins, eins og Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga, geri skuldbindandi samninga fyrir þriðja aðila.

Í því sem ég hef lesið og hef haft undir höndum kemur þó hvergi fram að samningar séu skuldbindandi. Alls staðar er verið að gera tillögur eða benda á leiðir eða eitthvað slíkt. Í sjálfu sér er hvergi sagt að svona skuli þetta vera eða að Íbúðalánasjóður, eða hver það er sem er þátttakandi í þessu samkomulagi, eigi að gera eitthvað, heldur er leitað eftir því að svoleiðis verði það. Það hefur ekki gengið eftir og nú er verið að fara í gegnum þingið með þessa tillögu sem er ekki sögð vera fordæmisgefandi.

Ég hef ákveðnar efasemdir um að það geti verið. Ef sveitarfélagið lendir aftur í nákvæmlega þessari stöðu, hvað þá? Ég tel því mjög mikilvægt að við getum skoðað þessi gögn betur og komist að því hvort þetta geti gerst aftur. Hvað segir okkur að þetta geti ekki gerst aftur? Það eru fleiri sveitarfélög í þessari stöðu, þ.e. eiga erfitt vegna félagslegra íbúða, gætu óskað eftir þessari aðstoð, hækkað öll sín gjöld, allar sínar álögur, gert nákvæmlega það sem þetta sveitarfélag gerði. Hvað svo? Þannig að ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að fara betur yfir.

Varðandi desemberuppbótina þá verð ég að lýsa ánægju minni með að það mál hafi náð í höfn. Ég held við hljótum öll að vera sammála því og sátt við þá niðurstöðu. Ég er hins vegar ekki endilega sátt við það hvernig á að fjármagna hana. Ég get ekki greitt því atkvæði hvernig hún er fjármögnuð. Það er ekki að mínu skapi. Það er kannski þannig með margt annað sem er í fjárlögum og að hluta í fjárauka, þetta eru klárlega óvænt útgjöld og eiga þarna heima, af því að við höfum mikið rætt um það hvað eigi heima í fjáraukalagafrumvarpinu. Ef þetta eru ekki óvænt útgjöld þá veit ég ekki hvað.

Við vitum ekki í upphafi árs hvort atvinnulausir verða þúsund eða fimm þúsund, ég held að það sé alveg ljóst. Spár eru gerðar og út frá því göngum við eins og forsendur fjárlaga eru. Ég bið þingmenn að hafa það í huga, þegar þeir gera upp sitt fyrsta heila fjárlagaár, að líklega gengur ekki allt eftir eins og þeir helst vilja vona. Meðal annars eru það tölur af þessu tagi en því miður hefur atvinnulausum fjölgað aðeins aftur á síðari hluta ársins. Hluta af tekjum úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða fjármunum hans var í sumar varið til að aðstoða unga og atvinnulausa námsmenn. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að það gekk á fé hans.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég held að ágætisumræða hafi orðið um fjáraukalög og vona að vinnan í nefndinni verði ágæt þá metra sem eftir eru fram að jólum. Ég vona að við náum þokkalegu samkomulagi um það sem út af stendur.