143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:07]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tekjur Ríkisútvarpsins voru markaðar núna í ár þannig að það var ekki gott dæmi hjá hv. þingmanni, en það má auðvitað vera að markaðar tekjur hafi verið færðar út og suður. Ég kannast þó ekki við það. Kannski hefur það gerst áður en ég fór að fylgjast með þessum málum, en ég get auðvitað tekið undir það með hv. þingmanni að við þurfum að fara yfir mörkun tekna og hvernig þær stýra stofnanaþróun í landinu. Á meðan þær eru þarna, á meðan lögin eru þarna sem gera ráð fyrir tekjum mörkuðum til ýmissa verkefna eins og t.d. til fjarskiptasjóðs, held ég að við eigum a.m.k. að stefna að því að láta sama yfir alla ganga, því að við getum ekki bara snúið frá mörkun tekna eftir hentugleika, eftir hvernig stendur á hjá okkur hverju sinni. Við þurfum að skoða það heildstætt.

Þess vegna var að mínu áliti óeðlilegt að gera undantekningu varðandi mörkuðu tekjurnar til fjarskiptasjóðs, enda er gert ráð fyrir framlögum til þess að uppfylla þjónustusamninginn við Farice. Þessir peningar hins vegar áttu að fara í það að koma til móts við hinar dreifðu byggðir. Þar er sannarlega nauðsynlegt að taka til hendinni til þess að gera búsetuskilyrði vænlegri á þeim svæðum sem búa t.d. ekki við netsamband, sem getur nú varla kallast annað en skert búsetuskilyrði nú á tímum.