143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það mál sem hérna er uppi á rætur sínar í svokallaðri raforkutilskipun Evrópusambandsins frá sínum tíma sem var samþykkt á Alþingi og hefur síðan orðið heilmikil umræða í samfélaginu um það, og m.a. hér í þinginu, hvort Ísland hafi hugsanlega gengið of langt að því er varðar tilskipunina. Því hefur verið haldið fram að Íslandi hafi í raun og veru gerst í því tilefni kaþólskari en páfinn og gengið miklu lengra en efni tilskipunarinnar gerði ráð fyrir í uppskiptingu á fyrirtækjum. Ég hygg eftir á að hyggja að flestir séu þeirrar skoðunar að við höfum gengið óþarflega langt af því að efni tilskipunarinnar miðast auðvitað við að Evrópa sé einn raforkumarkaður. Þau rök voru höfð uppi á sínum tíma að hún ætti ekki við hér á landi.

Eins og ég skil þetta mál er það afkvæmi þeirrar ákvörðunar frá sínum tíma. Því hefur verið frestað hér æ ofan í æ að láta þessa uppskiptingu taka gildi. Ég vil gjarnan heyra hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, formanni nefndarinnar, hvort umræða hafi farið fram um þetta efni í nefndinni og hvort sjónarmið um það hafi komið fram í umsögnum eða hjá gestum eða í umræðu meðal nefndarmanna. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé óheillaskref sem hér er verið að stíga og sé leifar af því hvernig við innleiddum raforkutilskipunin og ég held að flestir séu sammála um að þar hafi verið óþarflega langt gengið af okkar hálfu.