143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni að tala um að fulltrúar þeirra flokka sem voru hér við stjórnvölinn árið 2003 þegar þessi gjörningur átti sér stað séu að hlaupa frá ábyrgð sinni í málinu. Hann heyrði væntanlega, eins og öll þjóðin, að hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan að það hefðu verið mistök að gera þetta. Ég get því ekki séð að menn séu að hlaupa frá því.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hv. þingmaður sé að hlaupa svolítið frá því sem hann var spurður um áðan, af hverju menn drifu ekki í að gera eitthvað síðastliðin fjögur ár. Fyrsta spurning mín til hv. þingmanns er sú að þar sem staða orkufyrirtækja á Íslandi er ólík að þessu leyti, telur hann þá líkindi á því eður ei að þetta fyrirkomulag eða sú staða sem nú er uppi geti hugsanlega stangast á við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga? Þá kemur upp önnur staða og væri svo, óttast þingmaðurinn þá að önnur orkufyrirtæki sem búa við þá stöðu að hafa verið skipt upp ættu hugsanlega einhvern rétt eða mundu áskilja sér rétt til að verða jafnsett Orkuveitunni?