143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

kjarasamningar og skattbreytingar.

[10:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Mér finnst nú svolítið mikið í lagt að segja að ASÍ hafi fallist á að ríkisstjórnin mætti færa á milli fjárlagaliða. Staðreynd málsins er sú að með þeirri aðgerð að taka fjármuni af Starfsendurhæfingarsjóðnum og flytja yfir til Atvinnuleysistryggingasjóðs er hreinlega verið að auka útgjöld ríkisins á árinu 2013, það er því sérstök ákvörðun sem þingið tekur þegar upp er staðið. Það er hins vegar rétt ábending að vannýttar fjárheimildir voru til staðar á þessum tiltekna fjárlagalið og því var sjálfsagt að færa þarna á milli, enda er það í góðri sátt við verkalýðshreyfinguna.

Við erum að vinna að því sem hv. þingmaður spyr um og það er minn skilningur að unnið sé að því núna í fjárlaganefndinni að finna leiðir til þess að færa aukið framlag yfir til Vinnumálastofnunar til þess að hún geti sinnt vinnumarkaðsaðgerðum, hjálpað atvinnuleitendum og forðað þeim frá atvinnuleysi sem nýlega hafa misst störf. Það er til skoðunar í fjárlaganefnd.

Varðandi skattabreytingar sem kynntar hafa verið er það svo að það sem ríkisstjórnin hefur nú þegar ákveðið að gera ætti að hafa liðkað mjög fyrir samningum á vinnumarkaði. Ég nefni sérstaklega skattalækkanir. Ég nefni sérstaklega aðgerðir til þess að draga úr skerðingum á bótum. Ég nefni stóraukin framlög í heilbrigðiskerfið og ég gæti haldið svona áfram. Skuldaaðgerðir upp á 20 milljarða hafa verið kynntar og koma til framkvæmda strax á næsta ári. Það kæmi mér því verulega á óvart ef aðilar vinnumarkaðarins horfðu til ríkisstjórnarinnar og spyrðu: Hvað, er ekkert sem þið getið gert (Forseti hringir.) til þess að hjálpa til?