143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fer í sératkvæðaskýringu hér um desemberuppbótina. Það sem liggur fyrir er að nú er frumvarp til fjáraukalaga 2013 um það bil að verða að lögum. Leggur meiri hluti til fjórar gjaldbreytingar þar sem hluti af millifærslum sem gerðar voru við 2. umr. er dreginn til baka vegna þess að þær eru ekki í samræmi við anda fjárreiðulaga og verklag rammafjárlagagerðar. Einnig leggjum við til að fallið sé frá leigusamningi við Perluna. Reykjavíkurborg var búin að handsala þann samning við ríkisstjórnina á sínum tíma, fyrri ríkisstjórn, en það þurfti staðfestingu Alþingis til þess að sá samningur mundi verða virkjaður.

Hér eru lagðar til breytingar á fjarskiptasjóði sem verður farið yfir í atkvæðaskýringu á eftir þegar sú tillaga liggur fyrir. Loks leggjum við til að lækkun verði á heimildum til erlendrar lántöku ríkissjóðs, úr 128 milljörðum í 108.