143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[13:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um vilja hv. þingmanns til þess að hlúa betur að barnafjölskyldum. Það er náttúrlega þannig að ríkisstjórn á hverjum tíma byggir á stuðningi hv. þingmanna og þar af leiðandi verða menn að bera ábyrgð á heildarniðurstöðunni.

Ég harma þessa stefnu núverandi ríkisstjórnar og vefengi það að hún vinnið mikið fyrir barnafjölskyldur. Þótt horft sé í henni á eignastöðu fólks er ekki síður mikilvægt að horfa á framfærslu og það hvernig fólki er búin aðstaða til þess að ala börn sín upp.

Hvað varðar að seinka lengingu á fæðingarorlofinu þar sem átti eingöngu að taka einn mánuð í fyrsta áfanga og síðan stig af stigi. Við verðum að átta okkur á því að tryggingagjaldið skiptist í tvennt; það fer annars vegar í almennar atvinnuleysistryggingar og síðan í félagslegan hluta sem er til að fjármagna fæðingarorlof og fleiri þætti og það er tekið úr þeim þætti og fært yfir í 0,1% lækkun á tryggingagjaldi hjá fyrirtækjum. Ég held að menn hefðu getað gert það án þess að taka af þessum sjóði. Ég harma það og vil að það komi fram í tengslum við tillöguna vegna þess að auðvitað hangir þetta saman.

Ég fagna tillögunni vegna þess að það er þó verið að nýta tímann til þess að horfa aðeins fram í tímann. Ég skora á hv. þingmann að koma í lið með okkur og taka aftur upp tillögurnar um lengingu á fæðingarorlofi. Það er einu sinni þannig að Íslendingar eru með stysta fæðingarorlof af Norðurlöndunum og flestum Norður-Evrópuríkjum. Þannig megum við ekki hafa það til langs tíma.