143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir góðar umræður um þetta mál.

Fyrst vil ég aðeins bregðast við þessu um vaxtabæturnar og þeim breytingum sem eru að verða þar. Hv. þm. Árni Páll Árnason gerði að umtalsefni að hér væri verið að gera aðför að millistéttinni. Þarna er einungis verið að lækka þá upphæð tekna sem skerðingin hefst við, sem sagt úr 625.000 niður í 588.000, þ.e. um 37 þús. kr. sem er ekki mikil breyting. Þetta fer úr 8% upp í 8,5%. Það þýðir líka að ekkert er verið að skerða þá sem minnst mega sín. Það er svo mikilvægt í þessu, að við erum að reyna að standa vörð um þá sem eru verst settir.

Auðvitað er það líka þannig að þeir sem eru þó yfir þessum mörkum, 588.000, fá vaxtabætur, en þær skerðast með ákveðnum hætti og verða ekki að engu fyrr en menn eru komnir vel yfir milljón í tekjur. Þær nýtast því áfram.

Í framsögu sinni veltir hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar því fyrir sér hvort bankaskatturinn sé ótryggur og hvað gerist þegar og ef að því kemur að slitabúin hætta að vera slitabú og við leysum úr vandanum með höftin. Það hefur alltaf verið ljóst að þegar það gerist verða þau að skilja eftir mikið af krónum í vörslu ríkisins, það leysir málið að sjálfsögðu með öðrum hætti.

Þegar var verið að tala fyrir skuldaleiðréttingunum í upphafi var alltaf talað um að nýta það svigrúm sem mundi myndast þannig að það er alveg í takti við það sem hefur verið talað um þar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi um níföldun bankaskattsins. Það er rétt reiknað, úr 0,041% í 0,376%, en þá verðum við að taka tillit til frískuldamarksins sem er upp á 50 milljarða. Það er ekki hægt að slíta þetta tvennt úr samhengi, held ég, og við verðum að líta á það sem einn hlut, þótt ég verði að harma það, eins og hér hefur komið, að við höfum ekki ákveðið endanlega sjálfa skattprósentuna. Við vorum búin að ákveða að setja inn frískuldamark vegna þess að menn höfðu séð að hérna við lokaumræðu þyrftum við að hækka þessa prósentu töluvert.

Þetta er það sem ég vildi segja til að bregðast við ágætum og málefnalegum umræðum frá hv. þingmönnum og lengi umræðuna ekki frekar.