143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:33]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar en verð þó að segja að ég get tekið undir afar fátt í henni. Ég varð pínulítið hryggur þegar ég áttaði mig á því að Vinstri grænir geta ekki að svo stöddu stutt þær tillögur sem snúa að því að leiðrétta þann forsendubrest sem varð hér haustið 2008 sem gerði það að verkum að þeir sem voru með verðtryggð lán þurftu að búa við snarhækkuð lán. Nú hefur það verið leiðrétt eða verður vonandi leiðrétt.

Það eru nokkrar klisjur sem ég hef reyndar ekki heyrt eftir að tillögurnar komu fram eins og að hér sé um sérstakan landsbyggðarskatt að ræða. Svo er ekki, virðulegi forseti. Það væri nú gaman ef hv. þingmaður mundi reyna að færa rök fyrir þeim fullyrðingum. Eins og allir vita og var greitt atkvæði í dag um að leggja skattana á bankana í þessu landi sem Vinstri grænir og allir þingmenn greiddu atkvæði með hér sem var mjög gott. Hún eyddi þó nokkrum tíma í að taka undir með bönkunum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þau álit sem komu frá bankastofnunum fari saman við þá hugmyndafræði sem Vinstri grænir standa fyrir. Ég hefði ekki talið svo. Ég hefði nefnilega talið að Vinstri grænir ættu frekar að fagna því að sækja eigi peninga til þeirra sem sköpuðu vandann á sínum tíma.

Svo er eitt líka að lokum sem ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með. Það er fullyrðing um að búast megi við því að skuldaleiðréttingar eða frumvörp þeim tengdum muni eiga langa göngu í gegnum þingið. Ég vona svo sannarlega ekki, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, fyrir heimilin í landinu.