143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að svara þessu síðasta. Ég held ég hafi ekki fengið það orð á mig hér í þinginu fyrir að vera fúl á móti, bara til að hafa sagt það svona í upphafi.

Það var Arion banki sem ég vitnaði til, svo hv. þingmaður viti það þar sem hann ræddi það við mig hér áðan.

Við bentum á það, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson, að þetta tekur tíma. Um það erum við sammála. En við Vinstri græn viljum bíða, við viljum fá nánari greiningar á þessu. Við viljum líka láta greina þann hóp sem er í raunverulegum vanda, sem er í greiðsluvanda, lánsveðshópinn o.s.frv. Það er meginmunurinn á því sem við viljum gera í okkar tillögum og því sem hæstv. ríkisstjórn leggur til. Um það erum við ósammála og þess vegna getum við ekki stutt þetta að svo komnu máli. Hvað verður þegar þessi frumvörp koma fram vitum við ekki, það getur ýmislegt átt eftir að breytast. Vika er löng í pólitík eins og við vitum. Hér hefur það nú heldur betur skýrst undanfarna daga, að hlutirnir breytast hratt. Kannski verða þeir bara orðnir okkur að skapi eftir áramótin hvað þetta varðar, hver veit?

Eins og þetta er lagt upp — tekjuhátt fólk sem á kannski stórar eignir og á ekki beinlínis í greiðsluvanda, það er að fá neyðaraðstoð af hálfu ríkisins, neyðaraðstoð, því að þetta er ekkert annað, ef við erum að borga tugi milljarða út úr ríkiskerfinu til að aðstoða fólk sem skuldar en er ekki í beinum greiðsluvanda í staðinn fyrir að hjálpa þeim sem hafa nú þegar misst húsnæði og hafa ekki fengið hjálp nú þegar eða eitthvað slíkt, og sem þurfa virkilega á því að halda. Liggi fyrir greiningar um alla þessa hópa þá þætti mér vænt um að það væri borið á borð fyrir okkur. Það hef ég ekki séð.

Ýmsir álitsgjafar hafa gefið álit sitt. Hv. þingmaður fetti fingur út í að ég væri að fara hér með svartagallsraus, en það er ástæða til að hlusta á þetta. Við eigum að taka tillit til þess, við eigum að (Forseti hringir.) velta þessu fyrir okkur áður en við ráðumst í svona mikilvægar aðgerðir.