143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við erum hér komin í lokaumræðu um fjárlög fyrir árið 2014. Eins og fram hefur komið í umræðum hefur þetta frumvarp tekið ýmsum breytingum í meðförum þingsins sem er eðlilegt og ekki óvenjulegt því ég hygg að fjárlög taki alltaf nokkrum breytingum, en kannski mismiklum, í vinnslu þingsins.

Fjárlagafrumvarp hverrar ríkisstjórnar er eitt af þeim meginfrumvörpum sem hún leggur fram á hverju ári. Þar birtast að sjálfsögðu áherslur viðkomandi ríkisstjórnar í efnahagsmálum og ríkismálum. Það er líka eðlilegt að tekist sé á um þær áherslur milli stjórnmálaflokka, milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er gangur lýðræðisins að menn hafa ólíka sýn á það hvernig markmiðum er náð og hvaða markmið menn setja sér. Um það hefur verið tekist á hér, bæði í þingsal og í nefndarvinnu. Ég heyri samt að nefndarvinnan hafi í öllum aðalatriðum gengið vel og verið gott samstarf í nefndum, það er jákvætt.

Við höfum gagnrýnt það hvað fjárlagafrumvarpið kom seint fram. Við gagnrýndum það reyndar strax í sumar þegar gerðar voru breytingar á þingskapalögum í þá veru að þingsetningunni, og þar með fjárlagafrumvarpi, var frestað um þrjár vikur. Ein meginástæðan fyrir því að þessu var breytt á sínum tíma var einmitt að gefa þinginu lengri tíma til þess að vinna fjárlagafrumvarp og tengd frumvörp. Ég held að það hafi endurspeglast í stöðunni á þingi í haust að fresta varð 2. umr. um fjárlagafrumvarp um eina viku eða tíu daga frá upphaflegum áætlunum. Það held ég að helgist af því að frumvarpið kom nokkuð seinna fram heldur en almenna reglan í þingsköpum gerði ráð fyrir. Það er bagalegt.

Við erum samt komin hér, 20. desember, í síðustu umræðu um fjárlagafrumvarpið. Mig langar í þessari umræðu að fara í nokkur atriði sem hafa verið til umfjöllunar. Ég ætla ekki að fara sérstaklega ofan í nefndarálit frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar eða fulltrúum míns flokks í fjárlaganefnd, en vil vekja máls á nokkrum atriðum sem hafa verið til umræðu.

Mig langar til þess að fara fyrst sérstaklega í skuldamál heimilanna sem hafa verið hér til umfjöllunar og eru aðeins viðruð í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur komið hér í andsvör við tvo hv. þingmenn úr fjárlaganefnd um þau mál. Ég vil segja það að upphaf þessa máls alls er auðvitað að rekja til efnahagshrunsins. Ég vil taka undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur sem sagði áðan að það varð auðvitað öll þjóðin fyrir forsendubresti, burt séð frá því hvort fólk skuldaði eða skuldaði ekki. Fólk missti vinnuna og fólk hafði gert ýmsar áætlanir og ráðstafanir, fólk sem ekki hafði fest kaup á húsnæði hafði kannski verið með það í bígerð og annað slíkt. Allir urðu í sjálfu sér fyrir ákveðnum forsendubresti og hann var misjafn. (Gripið fram í.)

Við þessu var reynt að bregðast með ýmsum hætti strax haustið 2008 af þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með neyðarlögum. Menn höfðu ýmsar skoðanir á því hvort sú leið hefði verið rétt eða ekki og hvort hún hefði verið rétt útfærð. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur hér sérstaklega nefnt að innstæður voru tryggðar og þar hafi fyrst og fremst þeim sem voru vel stæðir hjálpað. Það má segja að hugsanlega hefðu menn átt að útfæra neyðarlögin með aðeins öðrum hætti, t.d. setja þak á innstæðutryggingarnar. Ég vil ekki útiloka það, en ég átti ekki aðild að ríkisstjórn á þeim tíma og var svo sem ekki ábyrgur fyrir því, en ég tel að kannski hefði átt að gera það, setja ákveðið fjárhæðarþak. En það voru auðvitað líka margir sem áttu bara sinn almenna sparnað, ekkert endilega vel stætt fólk, jafnvel ellilífeyrisþegar eða fólk komið á eftirlaun sem átti sinn sparnað, sem nam ekkert endilega háum upphæðum, en fékk það tryggt. (Gripið fram í: … sett upp sem þeir sem skulda.)

Frú forseti. Er ætlast til þess að það séu samtöl milli ræðumanns og salarins?

(Forseti (ValG): Forseti biður hv. þingmenn um að tala saman í ræðustóli.)

Það urðu allir fyrir ákveðnum forsendubresti. Á því hefur verið reynt að taka. Það var gert með neyðarlögunum. Það var gert á síðasta kjörtímabili af hálfu þáverandi ríkisstjórnar með ýmsum hætti. Sumir hafa gagnrýnt það. Ég minnist þess að hér komu þingmenn sem voru í stjórnarandstöðu þá og sögðu æ ofan í æ úr þessum ræðustól að það hefði ekkert verið gert fyrir heimilin í landinu. Ekkert.

Síðan ber svo við að þegar nefnd á vegum núverandi ríkisstjórnar birtir skýrslu um aðgerðir í þágu heimilanna kemur fram að þær aðgerðir sem gripið var til á síðasta kjörtímabili skuli koma til frádráttar þeim aðgerðum sem nú á að fara í. Þá kemur fram í þeirri skýrslu sömuleiðis að það voru bara umtalsverðar fjárhæðir sem um var að ræða,(Gripið fram í.) þannig að áróðurinn á sínum tíma um að ekkert hefði verið gert reyndist ekki réttur. Gott og vel, hér erum við stödd.

(Forseti (ValG): Forseti biður hv. þingmann að koma frekar í andsvör.)

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum og greiddum atkvæði hér með þeim skatti á bankana og fjármálafyrirtækin sem ætlað er að leggja á, ekki síst til að standa undir aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað í þágu heimilanna. Við teljum að það sé rétt. Við teljum að nú séu forsendur til að leggja skattinn á bankana í slitameðferð. Það var auðvitað erfitt að ákveða það þegar ekki var ljóst hvert væri andlag skattsins á meðan búin voru enn þá í þeirri stöðu sem þau voru, en við teljum að nú, þegar sú staða hefur verið gerð upp, séu forsendur til að leggja á þennan skatt. Ýmis sjónarmið hafa komið upp um lögmæti skatts af þessum toga, en við treystum því að sá grundvöllur sem ríkisstjórnin telur að sé fyrir þeirri skattlagningu haldi og viljum standa að þessu.

Það er hins vegar áhyggjuefni varðandi þessa fjármögnun að slitameðferðinni — nú á að sækja þessa peninga til fjármálafyrirtækja í slitameðferð — á að verða lokið ef ég hef skilið málið rétt á næstu tveimur árum eða svo, á meðan skatturinn á að vera til að minnsta kosti fjögurra ára. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvað verður um þennan skattstofn þegar slitameðferðinni sem fyrirtækin eru í er lokið? Þá eru þau væntanlega ekki lengur til staðar til þess að greiða þennan skatt. Þannig að ég tel að fjármögnunin sé ekki að fullu tryggð. Það er áhyggjuefni.

Þetta er að vísu atriði sem hljóta að koma hér til meðferðar þegar ríkisstjórnin leggur fram frumvarp um málið sem hún hefur heitið að gera á vorþingi. Þá gefst ráðrúm til þess að fara betur í saumana á málum af þessum toga.

Við erum að sjálfsögðu ekki andsnúin því að gripið sé til ráðstafana fyrir skuldug heimili í landinu, en við teljum engu að síður að þær aðgerðir verði að vera markvissar. Mönnum verður að vera ljóst fyrir fram, þegar þeir eru að ákveða útfærsluna, hvernig hún kemur út fyrir einstaka hópa.

Tökum sem dæmi hjón sem eru með milljón á mánuði í laun hvort og eiga kannski 120 millj. kr. hús í Garðabæ, skulda kannski 20–30 milljónir og geta vel staðið undir því. Er endilega réttlátt að setja kannski 4 milljónir úr almannasjóði til þeirra við slíkar aðstæður? Ég hef efasemdir um það. En þetta er útfærsla sem á eftir að koma fram og við fáum ráðrúm til að skoða betur.

Við erum því opin fyrir þessum aðgerðum. En við viljum vita nákvæmlega hvernig þær koma út fyrir einstaka hópa. Við viljum líka vita hvernig ýmislegt í fjárlagafrumvarpinu vegur þar á móti.

Í 2. umr. um fjárlagafrumvarpið nefndi ég að verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins og ýmsar aðgerðir til þess að hækka ýmis gjöld hjá hinu opinbera gætu haft neikvæð verðlagsáhrif, þ.e. gætu leitt til meiri verðbólgu. Þá er hættan sú að verðtryggingin hækki meira en ella og spurningin er þá: Er það nýr forsendubrestur? Eða er hluti af því sem heimilin eiga að fá, skuldug heimilin í gegnum skuldaleiðréttingarnar, tekinn til baka með verðbólgunni og hækkun á verðtryggingunni? Þetta er atriði sem menn verða að skoða og fara yfir fordómalaust og vita hver heildaráhrifin eru.

Það má líka spyrja hvernig lækkun á vaxtabótum, sem hér var ákveðin núna, vegur á móti. Við erum ekki að segja fyrir fram að við ætlum að vera andsnúin þessum aðgerðum, síður en svo. Við studdum fjármögnunina, en við viljum vita hvernig á að útfæra hlutina, hvernig þeir koma út og við viljum fyrst og fremst að það sé ákveðið félagslegt réttlæti í því. (Gripið fram í: Eftir áramót.) Frumvarpið kemur eftir áramót eins og boðað hefur verið og þá gefst okkur ráðrúm til þess að fara í saumana á því og kalla eftir alls konar útreikningum og öðru slíku.

Ég vil því árétta það við hv. þm. Höskuld Þórhallsson, af því hann hafði áhyggjur af því í andsvari áðan að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ætluðum fyrir fram að segja að við værum á móti aðgerðunum, að svo er ekki. Þvert á móti. Við greiddum atkvæði með tekjuöfluninni. Við höfum bara fyrirvara á því vegna þess að við höfum ekki séð nákvæma útfærslu. Menn verða að virða okkur það til vorkunnar að við viljum vita hvernig útfærslan verður og hvernig hún skilar sér út í samfélagið. Það finnst mér eðlilegt.

Ég ætla að fara hér í ýmis nokkur önnur atriði. Ég hefði getað farið aðeins í sjúklingaskattinn, en nú hefur tekist samkomulag um að taka hann út og ég ætla ekki að eyða tíma í það. Ég fagna því að málflutningur stjórnarandstöðunnar í því efni hefur haft áhrif. Ég tel að það sé að sjálfsögðu hlutverk stjórnarandstöðunnar á hverjum tíma að tala fyrir sínum málum og reyna að koma einhverju áleiðis og ég er ánægður með það að ríkisstjórnin mætir þeim sjónarmiðum meðal annars í þessu efni.

Það er annað sem ég vil fara í sem ég er verulega ósáttur með. Það er hlutdeild okkar í þróunarsamvinnunni og niðurskurðurinn þar. Hér hefur verið talsverð umræða um þetta og því haldið fram að verið hafi niðurskurður í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hlutdeild þróunarsamvinnu í vergum þjóðartekjum hafi farið upp í 0,33% á árinu 2009 og síðan farið niður á árinu 2010 og 2011. Hér er mikilvægt að hafa nokkra hluti hugfasta sem skipta máli í samanburði af þessum toga, vegna þess að tölur geta alltaf verið mjög vandmeðfarnar.

Staðreyndin er sú að á árinu 2008 var gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi að hlutdeild þróunarsamvinnu yrði 0,23% af vergum þjóðartekjum. Ég bið sérstaklega hv. þingmenn Framsóknarflokksins að taka eftir þessum tölum og málflutningi vegna þess að það skiptir máli. Ég veit að þingmenn Framsóknarflokksins stóðu alveg heilir með okkur í þróunarsamvinnuáætluninni, eins og reyndar þingið allt eða að langmestu leyti, og mér finnst þetta skipta máli.

Í fjárlögum fyrir árið 2008 var gert ráð fyrir að hlutdeildin í þróunarsamvinnu yrði 0,23% af vergum þjóðartekjum. Þegar upp var staðið fyrir árið 2008 reyndist hún vera 0,27%, þ.e. nokkuð hærri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Af hverju var það? Það var vegna þess að gengi íslensku krónunnar byrjaði að lækka verulega mikið í ársbyrjun 2008. Verkefnin í þróunarsamvinnunni eru fjármögnuð og bundin í erlendum gjaldmiðli. Síðan byrjuðu þjóðartekjur að falla í kjölfar hrunsins. Þess vegna varð hlutfallið hærra en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Ekki vegna þess að menn höfðu tekið ákvörðun um að hækka það. Sama gerðist 2009. Þá hafði verið gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi að hlutdeildin yrði 0,26%, en útkoman varð 0,33%. Ekki vegna þess að menn höfðu bætt inn pening í málið, það var ekki svoleiðis, það var vegna þess að þjóðarframleiðslan féll á árinu 2009, eins og kannski flestir muna eftir enn. En fjárhæðin í þróunarsamvinnunni var föst og hún verður þá hlutfall af lægri tölu þegar upp er staðið. Þá verður hlutfallið hærra. Þetta skilja allir sem kunna að reikna.

Það er því ekki alveg sanngjarnt að segja að framlagið hafi svo verið lækkað á árinu 2010 og 2011. Það var lækkað í krónum og tölum og í hlutfalli af vergri þjóðarframleiðslu, en það er ekki sanngjarnt að miða við toppinn 0,33% sem stafaði af þessum ástæðum, ekki vegna þess að menn hefðu sett 0,33% í þróunarsamvinnu í fjárlögum heldur vegna þess að þjóðarframleiðslan féll og hlutfallið hækkaði þar af leiðandi. Þetta vil ég hafa á hreinu.

Síðan gerist það að á árinu 2011 er samþykkt á Alþingi fyrsta þingsályktunin um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem byggði á lögunum frá 2008. Þá kemur fram nákvæmlega hver framlögin í þróunarsamvinnu eiga að vera á hverju ári. Þar segir í þeirri áætlun, fyrstu áætluninni, að á árinu 2011 skuli hlutfallið vera 0,21% af vergum þjóðartekjum og útkoman varð 0,21%, nákvæmlega eins og áætlunin sagði fyrir.

Á árinu 2012 átti hún líka að vera 0,21% og varð 0,21%, nákvæmlega eins og áætlunin sagði fyrir. Á árinu 2013 átti hún samkvæmt áætluninni frá 2011 að vera 0,25% og það stefnir í, miðað við áætlaða útkomu á árinu 2013, að hún verði 0,25%. Nákvæmlega eins og áætlunin sagði fyrir. Þannig að frá því að fyrsta þróunarsamvinnuáætlunin er samþykkt hér á Alþingi hefur verið staðið við þetta hlutfall. Á árinu 2014 átti það að vera 0,28%, en í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar var það lækkað ofan í 0,26 og síðan hefur orðið meiri lækkun í meðförum þingsins. Þetta hlutfall verður því eitthvað lægra.

Það er þetta samhengi sem ég vil hafa í þessum hlutum. Ég harma mjög þennan niðurskurð af því ég tel að við séum þrátt fyrir allt það vel efnuð þjóð að við getum lagt okkar af mörkum til þeirra sem minnst bera úr býtum í alþjóðasamfélaginu.

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins koma að tveimur málum sem varða heimildarákvæði í fjárlagafrumvarpinu. Í breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið við 2. umr. kemur inn nýr liður sem ekki var í frumvarpinu upphaflega, heimildargrein sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Að afsala, í samráði við utanríkisráðuneyti, flugbrautakerfi, tengdu akbrautakerfi og flughlöðum á Keflavíkurflugvelli til Isavia ohf. enda verði þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands vegna varnar- og öryggismála tryggðar sem og varnar- og öryggishagsmunir landsins.“

Ég óskaði eftir því að þessi grein yrði kölluð til baka við 2. umr. og fengi umfjöllun í utanríkismálanefnd vegna þess að hér er verið að vísa í þjóðréttarlegar skuldbindingar og varnar- og öryggishagsmuni landsins og m.a. tengist þetta Mannvirkjasjóði NATO og hvernig eignarhaldi á flugbrautum á Keflavíkurflugvelli er háttað.

Þá kemur í ljós að þetta var mál sem hafði verið í undirbúningi á milli ráðuneyta um allnokkurn tíma en ekki hafði gefist ráðrúm til að lenda því, ráðuneytin eða stofnanirnar höfðu ekki náð að lenda þessu máli þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Þess vegna var þetta ekki inni í frumvarpinu sem slíku, en það kom beiðni til fjárlaganefndar um að setja þetta inn. Við sjáum þetta því fyrst þegar það kemur sem breytingartillaga við 2. umr. Það gerist bara fyrir örfáum dögum og við áttum síðan að samþykkja þetta svona.

Það var fundað í utanríkismálanefnd og fengin öll ráðuneytin sem að máli koma og einnig Isavia til að fjalla um málið. Þá upplýstist að málið hafði verið alllengi í undirbúningi. Auðvitað komu upp þau sjónarmið hjá þingmönnum úr öllum flokkum í utanríkismálanefnd að það væri mikil tilætlunarsemi að ætlast til þess að Alþingi hefði einn eða tvo sólarhringa til að fjalla um svona mál. Hér er verið að ræða um að afsala hlutafélagi, að vísu í 100% eigu ríkisins, flugbrautum og akbrautakerfi og flughlöðum á Keflavíkurflugvelli. Þetta er meira mál en svo að við getum látið það fara í gegn án þess að þingið hafi einhverja frekari aðkomu að málinu. (Gripið fram í: Þetta var ákveðið í síðustu ríkisstjórn.) — Nei, þetta kemur inn núna. Þetta er búið að vera í undirbúningi lengi. Reyndar sagði forstjóri Isavia að þetta væri atriði sem menn hefðu verið með alllengi í bígerð á þeim bæ, jafnvel einhver ár, en væri fyrst núna að koma fram með þessum hætti. Þetta hafði ekki verið til umfjöllunar í þinginu.

Ég gerði athugasemd við þetta og fleiri þingmenn, einnig þingmenn úr báðum stjórnarflokkunum. Við gerðum athugasemdir við hraðann á þessu máli og hvernig ætti að tryggja að þingið hefði einhverja frekari aðkomu vegna þess að hér skiptir máli að við erum með varnarsamning við Bandaríkin og eigum aðild að Atlantshafsbandalaginu. Þótt það séu ekki mín gæluverkefni er það engu að síður staða sem við sem þjóð og þing og ríkisstjórn verðum að virða og vinna út frá meðan svo er, ég tel að það sé mikilvægt.

Þess vegna var það að eftir umfjöllun utanríkismálanefndar kom inn ný breytingartillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar við 3. umr. um þessa grein þar sem hún er eins og hún var í breytingartillögunni við 2. umr., en við bætist setning sem er í anda þess sem ég hafði talað um í utanríkismálanefnd. Í viðbótarsetningunni segir, með leyfi forseta:

„Hafa skal samráð við fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd Alþingis áður en heimildin er nýtt.“

Þetta tel ég vera til mikilla bóta. Ég get fellt mig við þessa breytingartillögu af því að þá er tryggt að Alþingi, að minnsta kosti þær nefndir sem hlut eiga að máli, mun fjalla um málið ef til þess kemur að nýta eigi þessa heimild.

Að lokum, herra forseti, vil ég gera að umtalsefni mál sem varðar flugmál. Greint hefur verið frá því í fréttum og bent á að heimild sem Alþingi veitti á gildandi fjárlögum til að selja Reykjavíkurborg umdeilt flugvallarsvæði í Skerjafirði rynni út um áramótin og ekki hafi verið gert ráð fyrir að heimildin yrði áfram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014. Þar er sagt a.m.k. að það hafi verið mistök og að ráðuneytin hafi óskað eftir því við fjárlaganefnd að þessi heimild yrði áfram inni, en að meiri hluti fjárlaganefndar hafi ekki fallist á það, þess vegna sé þessi heimild ekki lengur inni.

Því hefur verið haldið fram að þetta hafi áhrif á það samkomulag og samstarf sem er á milli ríkis og borgar í flugvallarmálinu. Ég mundi hafa áhyggjur af því ef svo væri. Ég hef hins vegar upplýsingar um að Reykjavíkurborg og ríkið hafi sett á laggirnar sérstaka nefnd til þess að fjalla um flugvallarsvæðið. Mér finnst sjálfum mikilvægt að reyna að ná góðri sátt um Reykjavíkurflugvöll og framtíð hans milli landsbyggðar og höfuðborgar og allra aðila sem hlut eiga að máli, ég tel það þýðingarmikið. Sett hefur verið á laggirnar sérstök nefnd sem er undir forustu Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Ég hef skilið það þannig að menn ætli að bíða með samþykkt á skipulagi á þessu svæði og annað slíkt þangað til sú nefnd hefur lokið störfum, kannski einhvern tímann á næsta ári, seint á næsta ári, hvað veit ég um það. Þó að þessi heimild komi ekki inn í fjárlagafrumvarpið núna eða fjárlögin fyrir árið 2014 hafi það ekki áhrif á þá vinnu.

Mér finnst mikilvægt að fá þetta staðfest og ég fagna því að hæstv. innanríkisráðherra er hérna, af því ég vil heyra frá hæstv. innanríkisráðherra hvort hún sé sammála þeim skilningi að áfram sé verið að vinna á grundvelli þess samkomulags sem hefur legið fyrir á milli Reykjavíkur og ríkisins og það hafi engin áhrif á það þótt heimildarákvæðið verði ekki í fjárlögum fyrir næsta ár. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram hér í umræðunni þannig að það hafi verið sagt um málið.

Að lokum, herra forseti, ætla ég að segja að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum að sjálfsögðu sitja hjá í atkvæðagreiðslu um frumvarpið í heild. Það er eðlilegt að það sé afgreitt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, en við munum taka afstöðu til einstakra breytingartillagna út frá efni þeirra.