143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. fjármálaráðherra að vonandi getum við, a.m.k. sum hver, átt málefnalegar rökræður um það hvernig er best að haga skattkerfinu og alveg einkum og sér í lagi álagningu tekjuskatts á einstaklinga því að það er eitt stærsta og öflugasta tækið sem við höfum í höndum til þess að reyna að vinna t.d. gegn vaxandi launamun og bremsa vinnumarkaðinn af í þeim efnum o.s.frv.

Ég tel það í sjálfu sér ekki vera nein rök, þó að rétt sé, að ríkið fái ekki út úr tekjuskatti manna fyrr en launin eru komin yfir 230 þúsund vegna fyrirkomulags sem hefur verið langalengi við lýði, að ríkið bæti sveitarfélögunum upp það sem á vantar í fullt útsvar af launum þar fyrir neðan. Það er bara hluti af hinum föstu tekjusamskiptum ríkis og sveitarfélaga og hefur verið svo mjög lengi. Það er að vísu rétt að ríkið hefur axlað þyngri byrðar seinni árin vegna þessa fyrirkomulags því að menn hafa fært verkefni frá ríki til sveitarfélaga og fjármagnað þau með hækkun útsvars. Þar með er útsvarið orðið stærri hluti tekjuskattsstofnsins og þegar upp á vantar verður dýrara að bæta það upp. Sveitarfélögin hafa kannski ekki metið þetta að verðleikum sérstaklega. Þau fengu t.d. þennan mun alveg ókeypis þegar málefni fatlaðra voru færð yfir og ríkið færði yfir 1,2 prósentustig sem jók auðvitað þennan halla og kostnað ríkisins við að bæta upp fullt útsvar.

Varðandi jaðaráhrifin í kerfinu eru þau að sjálfsögðu til staðar og hafa að einhverju leyti aukist vegna skarpari tekjutengingar, t.d. vaxtabótanna, en þau eru þó ekki nema u.þ.b. 50% — það er algengast. Það er talsvert betra en það var hérna í eina tíð þegar jaðaráhrifin fóru alveg upp í 65% og jafnvel meira ef tekjutengdar afborganir námslána voru teknar með.