143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég efast ekki um að hv. þingmaður hafi ágætisheimildir úr verkalýðshreyfingunni en ég geri reyndar ráð fyrir að þær séu allar úr sömu áttinni, sömu átt og tillögur þingflokks Samfylkingarinnar um breytingar á fjárlögum komu. (ÁPÁ: Er það vond átt eða hvað?) Það er hins vegar mikilvægt að hlusta á fleiri en eina rödd og það er kannski það sem hv. þingmaður ætti að temja sér í samskiptum við verkalýðshreyfinguna.

Það er alveg rétt, eins og ég gat um áðan, að forseti Alþýðusambandsins hefur viðrað hugmyndir í ætt við þær sem hv. þingmaður rakti hér og ég hef lýst mig opinn fyrir að skoða, en það var engin samstaða um það innan verkalýðshreyfingarinnar á þeim tíma. Það kann að hafa orðið einhver breyting á því en ég veit ekki til þess að það sé orðin almenn samstaða um það innan verkalýðshreyfingarinnar að hafa áhersluna þar. (Gripið fram í.) Áherslan hlýtur að vera á því sem er líklegast til að skila niðurstöðu, skila lausn. Hvað sjáum við hérna í dag? Við sjáum niðurstöðu, við erum að sjá lausn sem þýðir að menn hafa haft áherslurnar á réttum stað. Það er ekkert annað en fagnaðarefni og ánægjuefni að geta greitt atkvæði með hlutdeild í lausn. Menn hefðu kannski mátt temja sér það í auknum mæli á síðasta kjörtímabili að vera opnir fyrir því að leysa hlutina, vera það sem kallað er lausnamiðaðir. (Gripið fram í.)

Hér horfum við sem sagt upp á lausn sem hv. þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, stjórnarandstöðuþingmaður, er búinn að lýsa yfir að hann gleðjist yfir. Ég gleðst yfir lausninni, aðilar vinnumarkaðarins gleðjast yfir því að ná samningum fyrir áramót og m.a.s. hv. stjórnarandstaða og formaður Samfylkingarinnar gleðjast. Er þetta ekki ástæða til að vera glaður? Eiga ekki allir að fagna því að hér sé komin niðurstaða sem stjórnarandstaðan gleðst yfir, stjórnarmeirihlutinn gleðst og aðilar vinnumarkaðarins líka? Svona á þetta að vera í aðdraganda jóla.