143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

jólakveðjur.

[18:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir hönd okkar alþingismanna vil ég þakka forseta Alþingis kærlega fyrir gott samstarf á því haustþingi sem nú er að ljúka. Ég vil sérstaklega þakka góða samvinnu við okkur þingflokksformenn. Þessu haustþingi er nú að ljúka svo gott sem á áætlun. Það hefur verið tíðindalítið og það er gleðiefni því að það vitnar um að nú eru ekki lengur knýjandi bráðaaðgerðir sem tröllríða hverju þinginu á fætur öðru eins og var hér fyrst eftir efnahagshrun. Það minnir okkur á að þrátt fyrir átök á stundum miðar okkur fram á veginn. Það er ástæða til að þakka fyrir góða samstöðu sem hér hefur tekist um ýmis mál á haustþinginu.

Ekki er síst ástæða til að þakka pólitíska samstöðu um mikilvægar úrbætur á þingmáli nr. 1, fjárlögum, og vil ég þakka hæstv. forseta sérstaklega atbeina hans að því máli og að farsælum samningum um þinglok.

Ég þakka virðulegum forseta hlý orð í garð okkar alþingismanna og óska forsetanum og fjölskyldu hans gleðiríkra jóla og farsældar á komandi ári. Ég vil líka nota tækifærið og þakka starfsfólki Alþingis góða samvinnu og ómetanlega aðstoð við okkur alþingismenn á yfirstandandi ári. Ég óska þeim gleðilegrar hátíðar og fjölskyldum þeirra.

Ég bið hv. alþingismenn að taka undir góðar óskir til forseta Alþingis, starfsfólks Alþingis og fjölskyldna þeirra með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]

Gleðileg jól.