143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

breytingar á skattkerfinu.

[13:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Rétt eins og hér hefur þegar komið fram voru síðustu verk okkar á Alþingi fyrir jólahlé að gera ákveðnar breytingar á skattkerfinu, sem komu í raun og veru beint í kjölfar annarra breytinga sem hæstv. ríkisstjórn hafði staðið fyrir, þ.e. lækkun sem var samþykkt á millitekjuþrep. Henni var breytt rétt fyrir jólahlé þannig að tekjumörkin á millitekjuþrepinu voru færð úr 240 þús. kr. upp í 290 þús. kr. Hins vegar hafa breytingarnar á skattkerfinu, sem og þeir kjarasamningar sem gerðir voru í kjölfarið, verið gagnrýndar einmitt út af því að þær og kjarasamningarnir sjálfir komu hinum lægstlaunuðu ekki nægjanlega til góða.

Það voru þau sjónarmið sem ég og fleiri þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfðum hér uppi fyrir jólahlé. Þótt við styddum breytingarnar, því að við töldum þær til góðs, breytir það því ekki að staða lægstlaunaða hópsins breytist ekkert gagnvart skattkerfinu, þess hóps sem er með laun frá 190 þús. kr., sem voru lægstu taxtalaun fyrir kjarasamningana sem gerðir voru í lok desember, og upp í 240 þús. kr. Það er ekki komið til móts við þann hóp hvað varðar skattkjör.

Ég hjó hins vegar eftir því í áramótaávarpi hæstv. forsætisáðherra, sem ég hlustaði að sjálfsögðu á og beið með eftirvæntingu eftir, að forsætisráðherra sagði að sérstaklega þyrfti að bæta áþreifanlega kjör þeirra lægstlaunuðu sem væru miklu lakari en við gætum talið ásættanlegt á Íslandi. Þetta sá hæstv. forsætisráðherra ástæðu til að gera að sérstöku umtalsefni. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað hann ætli að gera í kjölfar þeirra orða, nú þegar við erum nýbúin að samþykkja breytingar sem skipta mestu fyrir millitekjuþrepið. Hvað ætla stjórnvöld og hæstv. ríkisstjórn að gera til að standa við þau orð hæstv. forsætisráðherra að þarna þurfi breytingar og koma þurfi virkilega til móts við lægstlaunaða hópinn, sem við erum auðvitað hjartanlega sammála? Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) að gera til þess?