143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég tek ekki persónulegt skítkast til mín. Það hjálpar hins vegar ekki málefnalegri umræðu að fara með hana niður á það plan sem einstaka þingmenn hafa gert hér eða The New York Times og Ríkisútvarpið gerðu sameiginlega í umfjöllun um umhverfismál.

Friðlýsing á grundvelli náttúruverndaráætlunar kallar á miklu fleiri og víðtækari sjónarmið og samráð til að friðlýsing nái fram að ganga meðan heimild til rammaáætlunar snýst um vernd gegn orkunýtingu. Þetta hef ég áhuga á að láta skoða og er að skoða innan ráðuneytisins. Það er minn einlægi ásetningur að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Áhrifasvæðin í Þjórsá ná til sjávar. Þessar niðurstöður eru ekki nógu nákvæmar til að afmarka landsvæði virkjunarkosts og friðlýsingar. Það getur verið umdeilanlegt en þannig er það. Það þarf að gera og má gera umbætur, m.a. með reglugerð, og vonandi mun það verða til þess að styrkja rammaáætlun svo að sátt megi nást um hana til að takast á við þessi mál til framtíðar.

Jafnframt þarf að skoða hvort heppilegt sé, líkt og unnið hefur verið með stækkað friðland, að blanda saman ákvörðunum á grundvelli náttúruverndaráætlunar og rammaáætlunar. Ég verð að vitna hér í lögin, virðulegi forseti:

„Verkefnisstjórn fjallar um virkjunarkosti samkvæmt 2. mgr. og þau landsvæði sem viðkomandi virkjunarkostir hafa áhrif á að hennar mati. Verkefnisstjórn getur að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni endurmetið virkjunarkosti og landsvæði sem gildandi áætlun nær til og lagt til breytingar á henni. Það á þó ekki við ef gefið hefur verið út leyfi til viðkomandi virkjunar samkvæmt raforkulögum eða lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu eða friðlýsing samkvæmt 4. mgr. 6. gr. bannar framkvæmdina.“

Þetta þýðir væntanlega að verkefnisstjórn getur fjallað um og endurmetið virkjunarkosti sem hafa verið flokkaðir í nýtingu og vernd svo fremi að ekki hafi annaðhvort verið gefið út virkjunarleyfi fyrir kostinn í nýtingu eða að kosturinn í vernd hafi verið friðlýstur.

Menn geta spurt sig hvort þetta sé heppilegt, það eigi að vera stöðugt endurmat og skoðun flokka á virkjunum. Það er hugsanlega (Forseti hringir.) rökréttara þegar búið er að flokka að þar geti kosturinn verið í (Forseti hringir.) það minnsta í einhvern ákveðinn tíma, þrjú til fimm ár, og þá þurfi einhver (Forseti hringir.) haldbær rök til að leyfa endurmat til að það skili einhverju. (Forseti hringir.)

Ég treysti því að tækifæri til þess að ræða áfram um þessi mál við þingmenn (Forseti hringir.) umhverfis- og samgöngunefndar gefist í fyrramálið.