143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

raflínur í jörð.

60. mál
[17:29]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska öllum farsældar á nýju ári. Það er ekki vont að byrja það með því að fara yfir þessa góðu skýrslu sem ég vil þakka hæstv. iðnaðarráðherra kærlega fyrir.

Ég fagna skýrslunni og framlagningu hennar í þinginu og hlakka til að eiga samtal um hana við ykkur. Við þurfum að skoða þessi mikilvægu mál mjög vel, sérstaklega það sem lýtur að uppbyggingu raforkukerfis í landinu. Verkefnið er hluti af innviðum samfélagsins og er mikilvægt að stjórnvöld setji sér skýra stefnumótun í málinu. Ég er umhverfisáhugamaður og tel að nauðsynlegar virkjanir, framkvæmdir og línulagnir eigi að hanna eins og best verður á kosið og að vægi kostnaðaröryggis og umhverfis eigi að meta með þjóðarhag í huga. Við lestur skýrslunnar koma fram áhugaverð sjónarmið og upplýsingar varðandi flutning á raforku sem ég vil kynna mér nánar. Skýrslan er full af upplýsingum og sjónarmiðum hagsmunaaðila sem setja inn greinargóð sjónarmið og það er verðugt verkefni fyrir okkur í atvinnuveganefnd að glíma við þetta áhugaverða mál sem er líka svo mikilvægt fyrir okkur öll, heimilin og atvinnulífið í landinu.

Það er ljóst að í dag er Landsnet ekki í stakk búið til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar og flutningstakmarkanir hafa veruleg áhrif á þróun orkuviðskipta í landinu. Þar má til dæmis nefna, eins og hefur reyndar komið fram hér, rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja sem er mikilvægt mál. Í dag og frá byrjun hafa fiskimjölsverksmiðjur brennt olíu til að þurrka mjöl. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að nýta orkuna sem við eigum, en við þurfum að geta flutt hana á þessa staði. Styrking Landsnets á næstu árum og afhendingaröryggi eru því mikilvægur hluti af gæðum kerfisins og til þess fallið að auka öryggi heimila, iðnaðar og atvinnulífs um land allt. Eins og líka hefur komið fram er mikilvægt að við tökum ákvörðun um hvað þetta kerfi þarf að vera stórt en það er mjög mikilvægt að öryggi þess verði tryggt. Alþingi þarf því að samþykkja skýr viðmið og grundvallarreglur í lögin eða vilja til þess að setja línu í jörð þar sem sérstaklega sterk umhverfisvernd kallar á þá lausn. Víða erlendis er farin, með leyfi forseta, „partially undergrounding“-leið þar sem jarðstrengir eru settir í jörðu, a.m.k. á ákveðnum viðkvæmum svæðum. Mér finnst því áhugavert að skoða að fara blandaða leið jarðstrengja og loftlína þar sem horft er til viðkvæmra svæða og náttúruperlna ásamt öryggis- og þjóðarhagsmunum. Stofnkostnaður samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Landsneti, sem ég rengi ekki, er fyrir 220 kílóvolta flutningslínu með minnstum flutningi um 6,3 milljarðar fyrir loftlínu en 15,5 milljarðar fyrir jarðstreng að auki 600 milljóna vegna nauðsynlegra útjöfnunarstöðva. Hér munar miklu en Landvernd hefur líka bent á aðrar upplýsingar sem við þurfum auðvitað að skoða í því samhengi.

Það skiptir máli að fá niðurstöðu Alþingis í jarðstrengsmálið. Staðreyndin er sú að væntingar eru um að niðurstaða Alþingis gangi lengra en núverandi viðmið Landsnets. Þess vegna eru sveitarfélögin treg að ganga frá skipulagi vegna lína og veita framkvæmdaleyfi og málið er brýnt. Eins þarf að skoða breytt fyrirkomulag kerfisáætlunar og flutningafyrirtæki og í því skyni er mikilvægt að færa leyfishlutverk Orkustofnunar fram í ferlinu svo leyfi þeirrar stofnunar komist ekki síðast að.

Ég hef margt fleira um þetta að segja en læt staðar numið hér.