143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

skipun nefndar um málefni hinsegin fólks.

29. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska virðulegum forseta og hv. þingmönnum gleðilegs árs.

Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjar- og menntamálanefnd með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um skipun nefndar um málefni hinsegin fólks.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu K. Kristjánsdóttur og Uglu Stefaníu Jónsdóttur frá Trans Ísland, Guðrúnu B. Ólafsdóttur frá Q – Félagi hinsegin stúdenta og Önnu Pálu Sverrisdóttur, Guðrúnu Örnu Kristjánsdóttur og Sigurð J. Guðmundsson frá Samtökunum 78. Umsagnir bárust frá Önnu K. Kristjánsdóttur, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, Samtökunum 78 og umboðsmanni barna.

Tillagan felur í sér að félags- og húsnæðismálaráðherra skipi nefnd með þátttöku hagsmunaaðila, sérfræðinga og stjórnmálaflokka sem geri tillögu að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu.

Gestir nefndarinnar og umsagnaraðilar eru allir mjög jákvæðir í garð tillögunnar og telja mikilvægt að styrkja stöðu þessa hóps enn betur.

Nefndin bendir á að lög nr. 57/2012, um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, fólu í sér mikilvæga réttarbót þar sem lögfest var framkvæmd sem stunduð hafði verið í 20 ár og því rétt að skapa framkvæmdinni skýran lagaramma. Við meðferð þingsályktunartillögunnar í nefndinni komu fram ábendingar um að nauðsynlegt væri að skoða reynsluna af framkvæmd laganna með það að leiðarljósi að styrkja stöðu hinsegin fólks enn betur. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið.

Nefndin leggur áherslu á að sú nefnd sem á að gera tillögu að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks verði skipuð breiðum hópi sérfræðinga sem og fjölbreyttum hópi hinsegin fólks. Nauðsynlegt er að þeir aðilar sem veljist í nefndina hafi þekkingu á hinsegin fræðum og kynjafræðum.

Í tillögunni kemur fram að nefndin skuli skila niðurstöðum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2014. Nefndinni þykir einsýnt að sá tími sé of skammur og leggur til þá breytingu að nefndin skuli skila niðurstöðunum til ráðherra fyrir 1. október 2014. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Síðari málsliður tillögugreinarinnar orðist svo: Nefndin skili tillögum til ráðherra fyrir 1. október 2014.

Undir nefndarálitið rita hv. nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd, Unnur Brá Konráðsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Valur Björnsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson og Jóhanna María Sigmundsdóttir.