143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 7 í greinargerð með þingsályktunartillögunni er fjallað um það hvernig þessi áætlun er lögð fram og hvernig hún er frábrugðin síðustu. Hér er annars vegar reynt að taka mið af reynslunni og hins vegar að gera þetta svolítið markmiðstengdara og einfaldara. Hér er t.d. flokkum fækkað úr níu í fjóra og reynt að tengja þetta við aðrar stórar áætlanir og stuðningsverkefni á vegum ríkisins. Megináherslan er að stuðla að auknu jafnræði og jafna tækifæri íbúa og fyrirtækja til grunnþjónustu og innviða. Næstu tvö ár verða nýtt til þess að skilgreina jafnrétti til grunnþjónustu og innviða til þess að við getum lagt fram áætlun, sem ég er sammála hv. þingmanni um að þurfi að vera framkvæmdamiðaðri og meiri fjármunir í.

Varðandi sóknaráætlanir landshluta og þau verkefni er hugsunin einmitt sú að nýta þá hugmyndafræði sem þar er að baki og fá landshlutasamtökin og heimamenn á hverju svæði til liðs við byggðaáætlun. Hún verði unnin í nánu samráði við þá aðila þannig að þau tækifæri sem heimamenn sjá fyrir sér að séu best til þess að byggja upp á sínu svæði verði hluti af byggðaáætlun ríkisins eða stjórnvalda.

Varðandi brothættar byggðir er það verkefni sem fór af stað hjá Byggðastofnun sérstaklega en á auðvitað að vera hluti af þessu líka. Það var mikilsvert að tryggja að þeir fjármunir komu inn á fjárlög, 50 milljónir, og verði þar áfram. Ég tek undir með hv. þingmanni að það skiptir kannski ekki öllu máli hvernig þetta æxlaðist í fjárlagagerðinni. Niðurstaðan er sú að við höfum úr ákveðnum fjármunum að spila og aðalatriðið er að stefnan sé nokkuð skýr, en við þurfum að spýta í til að geta staðið við það að byggja upp grunnþjónustuna þannig að allir sitji við sama borð.